Auðmaðurinn Haraldur Þorleifsson fór mikinn á X-inu, miðli Elon Musks á dögunum, og fullyrti að velsæld hér á landi stafaði aðallega af því að Íslendingar nytu náttúruauðlinda, ferðaþjónustu og staðsetningar — velsældin hefði lítið með fólkið að gera, hún kæmi einkum til af heppni. Ísland væri bara borgarhverfi sem þættist vera land og litlu skipti hvaða stjórnmálaflokkur færi með völdin. Sjálfur hefði hann búið í borgarhluta Tokyo þar sem íbúar væru fleiri en allir Íslendingar.
Áþekkar yfirlætisfullar úrtöluraddir hafa heyrst á öllum tímum. Á árum áður var því iðulega haldið fram að Íslendingar væru of fáir og smáir til að geta stjórnað eigin málum. Sagan hefur afsannað þær fullyrðingar. Þó svo að fámenni fylgi ýmsir vankantar eru líka í því fólgnir kostir og Ísland nú í hópi nokkurra smáríkja sem búa við einhver bestu lífskjör í víðri veröld.
Þá kennir Íslandssagan okkur að miklu skiptir hverjir fara með völd, mest lífskjarasókn hefur orðið þegar létt hefur verið höftum af fólki og fyrirtækjum og komið á efnahagslegum stöðugleika. Nægir í þessu sambandi að horfa til sjöunda og tíunda áratugarins samanborið við áratugina á undan. Kaupmáttur launa jókst til að mynda lítið sem ekkert í óðaverðbólgu níunda áratugarins. Það þurfti stjórnmálamenn með alveg sérstaka hugsjón og einbeittar áætlanir til að aflétta höftunum um 1960. Með Viðreisnarstjórninni hófust miklir uppgangstímar. Nýrri ríkisstjórn 1971 fylgdu efnahagslegar kollsteypur. Það skiptir máli hverjir sitja við stjórnvölinn.
Haraldur gerði í tísti sínu á miðli Musks sér í lagi jarðargæði að umtalsefni, Íslendingar nytu umfram allt auðlinda. Svo sem alþjóð er kunnugt búa ótal þjóðir við örbirgð þrátt fyrir mikil náttúrugæði. Harmsaga olíuríkisins Venesúela er flestum þekkt, og þá hafa ýmis lönd, snauð af auðlindum notið mikillar velsældar. Í okkar heimshluta nægir að nefna Danmörku og Holland, sem auðguðust af blómlegri utanríkisverslun.
Náttúrugæði Rómönsku Ameríku mega teljast mun betri en Norður-Ameríku, margvíslegri auðlindir í jörðu, gjöfulli fiskimið og betri skilyrði til ræktunar. Samt eru lífskjör miklu hagfelldari í norðri og þangað streyma milljónir manna úr suðri í leit að bættum lífsskilyrðum. Hér ræður þjóðfélagsgerðin, réttarríki það sem byggt var upp í Bandaríkjum Ameríku. Mannréttindi voru tryggð með setningu stjórnarskrár sem enn er í gildi. Á sama tíma hafa verið settar hátt á annan tug stjórnarskráa í Venesúela þar sem verulega hefur skort á festu í stjórnarfari.
Stofnendum Bandaríkjanna var umhugað um eignadreifingu — því valdið leitar þangað sem auðurinn er og eignadreifing því forsenda valddreifingar. Bændur áttu sitt jarðnæði. Eignarrétturinn var skýr og naut traustrar verndar. Í Rómönsku Ameríku var öðru að heilsa, þar var misskipting auðs gríðarleg frá byrjun og miklu minni félagslegur hreyfanleiki. Þær aðgerðir New Deal-áætlunar Roosevelts forseta sem höfðu hvað mest áhrif til langs tíma sneru að því að gefa bandarískum almenningi kost á að eignast eigið húsnæði með því að veita borgurunum lán til langs tíma. Það er það sem við köllum séreignarstefnu í húsnæðismálum og áður var rekin hér á landi undir vígorðinu eign fyrir alla (ekki öll).
Sem betur fer hafa ýmsir nú í aðdraganda alþingiskosninga gerst málsvarar séreignarstefnunnar á nýjan leik, stefnu sem virtist gleymd um tíma í öllum áróðrinum fyrir byggingu leiguhúsnæðis.
Bandaríkin eru mögnuð þjóðfélagstilraun, þar spruttu snemma upp félagasamtök sem leystu hvers kyns vanda, reistu sjúkrahús og skóla. Hinir frjálsu borgarar tóku til hendinni — enda ekki hægt að treysta á að ríkisvaldið kæmi til bjargar. Sama þjóðfélagsþróun varð annars staðar á Vesturlöndum, borgararnir stofnuðu með sér margvísleg framfarafélög og enn búum við að arfleifð nítjándu aldar í þessu tilliti.
Nú er sú sérkennilega staða uppi hér að aldrei hefur jafnsáran verið kvartað undan skorti á fjármunum — á sama tíma og aldrei hefur jafnmikið verið til af peningum. Hið opinbera hefur færst miklu meira í fang en því er nokkurn tímann fært að sinna. Við þyrftum að fá fram nýja kynslóð stjórnmálamanna sem skilur mikilvægi frjálsra samtaka borgaranna til að leysa hvers kyns vanda, og skapar skilyrði þess að almenningur sjái sér hag í að taka til hendinni í stað þess að sérhagsmunahópar beini kröfugerð sinni eingöngu að ríki og bæjarsjóðum eins og nú er.
Lífskjör hér á landi eru ekki tilkomin vegna auðlinda sem slíkra heldur fólksins sem nýtir auðlindir. Fiskurinn í sjónum er ekki auðlind fyrr en hann hefur verið veiddur, verkaður og komið á markað. Fallvötnin eru ekki auðlind fyrr en orkan hefur verið beisluð og hún nýtt til að knýja vélar sem framleiða iðnvarning sem selja má á markaði. Til að hefja hvort tveggja þurfti mikið innflutt verksvit og stórkostlegar fjárfestingar sem í byrjun var ekki unnt að ráðast í nema með erlendu lánsfé.
Einhvern veginn eru þetta svo sjálfsögð sannindi að þau ætti ekki að þurfa að ræða sérstaklega en nú þegar tæp vika er þar til landsmenn ganga að kjörborði er vert að gefa þessu gaum. Æði mörg þingmannsefnin bera lítið skynbragð á verðmætasköpun, mikilvægi hugvits og þekkingar annars vegar og athafnafrelsis hins vegar: Að menn sjái sér hag í að leggja nótt við dag til að byggja upp atvinnurekstur, skapa verðmæti svo halda megi áfram vegferð til bættra lífskjara. Það getur ekki orðið með hærri sköttum og öðrum álögum á fólk og fyrirtæki. Við þurfum öllum stundum að vera minnug þess að Ísland er harðbýlt land sem varð nútímalegt velsældarríki fyrir hugvit og vinnusemi fólksins sjálfs. Lífskjarasókn til framtíðar mun byggja á því sama.