Goðsögnin Cher, gaf á dögunum út fyrri hluta sjálfsævisögu sinnar Cher: The Memoir, Part One sem aðdáaendur hafa beðið spenntir eftir.
Í bókinni er skemmtileg saga af því þegar söngkonan heimsfræga ákvað að breyta nafni sínu formlega í Cher hjá hinu opinbera árið 1979. Cher, sem þá var 33 ára gömul, hafði alltaf talið sig heita Cherilyn Sarkisian, fram að þessu og því fékk hún sjokk þegar hún komst að því að lagalega hét hún Cheryl.
Cher segist hafa í kjölfarið gengið á móður sína, Georgia Holt, sem var aðeins 19 ára þegar hún eignaðist hana. Í ljós kom að móðirin hafði sannarlega ætlað að skíra dóttur sína Cherilyn. Þegar Cher var nýfædd hafi hjúkrunarkona komið inn, beðið um nafn barnsins og greinilega misheyrst og skráð inn rangt nafn. Georgia hafi svo kvittað undir hina röngu nafnagift.
Þegar Cher baunaði þá á móður sína að hún vissi ekki einu sinni nafnið á eigin börnum þá hafi móðir hennar sagt:
„Æi, ég var bara táningur og var að drepast úr sársauka. Slakaðu á!“