Ása Guðbjörg Ellerup, eiginkona hins alræmda Rex Heuermann, sem grunaður er um að hafa myrt sex konur yfir þrjátíu ára tímabil, er sögð ætla að setja hús fjölskyldunnar á Long Island í New York-ríki á sölu. New York Post greinir frá þessu og segir að ásett verð sé um 100 milljónir króna. Í frétt miðilsins er sagt að fyrir utan peningana þurfi væntanlegur kaupandi að sætta sig við þá tilhugsun að Rex hafi lagt á ráðin í húsinu um djöfulleg myrkraverk sín og að húsinu hafi verið umturnað í leit að sönnunargögnum gegn hinum meinta raðmorðingja.
Ása er sögð vera orðin langþreytt af því að forvitnir ferðamenn, sem áhuga hafa á sönnum sakamálum, séu að sniglast í kringum húsið og vilji því yfirgefa það hið fyrsta.
Það er þó talið að húsið verði þungt í sölu enda margir sem geta ekki hugsað sér að búa á stað með slíka sögu.