Arion banki hefur birt yfirlit yfir helstu breytingar á skilmálum sínum. Reiðialda hafði gosið upp á samfélagsmiðlum eftir að Arion greindi frá breytingunum í 42 síðna bréfi sem viðskiptavinir skildu illa.
Í tilkynningu bankans kemur fram að skilmálabreytingarnar taki gildi þann 18. janúar næstkomandi fyrir núverandi viðskiptavini en strax fyrir nýja.
Helstu breytingar á almennum viðskiptaskilmálum eru:
Bætt var við ákvæði um aðgang viðskiptavina að vildarkerfi.
Skerpt var á heimildum bankans til að afhenda viðskiptavinum skjöl og yfirlit á rafrænu formi.
Bætt var við ákvæði um hvaða skilmálar gilda ef misræmi er í upplýsingum í appi og netbanka.
Bætt var við ákvæði um að gjöld vegna vara og þjónustu þriðja aðila, sem finna má í verðskrá bankans, geta tekið breytingum án fyrirvara.
Bætt var við ákvæði um niðurfellingu umboða þar sem bankinn áskilur sér rétt til að fella niður umboð ef við teljum hættu á misferli, svikum, peningaþvætti eða sambærilegu, og ef við teljum að umboð sé ófullnægjandi eða meira en 24 mánuðir hafa liðið án þess að umboð hafi verið notað.
Þá voru einnig gerðar breytingar á almennum innlánsskilmálum, debetkortaskilmálum og kreditkortaskilmálum. Hægt er að sjá þær hér. Tekið er fram að þetta yfirlit er ekki tæmandi heldur sett saman í upplýsingaskyni.