Fyrir átta árum síðan skreytti Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, köku í kosningabaráttunni. En nú eru nýir tímar og nýjar áherslur. Bjarni skipti kökunni út fyrir grasker í tilefni hrekkjavökunnar í lok október og nú hefur hann tæklað næsta verkefni – að baka pitsu eins og fagmaður í faginu.
Sjálfstæðisflokkurinn birti myndband á TikTok þar sem Bjarni heimsækir Pizzuna þar sem honum eru kennd réttu tökin við flatbökubakstur. „Það er bara eins og hann hefi ekki gert neitt annað hann Bjarni,“ segir kennari Bjarna í myndbandinu.
Bjarni var íhaldssamur þegar kom að áleggi og gaf lítið fyrir tillögur viðstaddra um framanandi álegg sem teljast í tísku í dag, svo sem banana eða döðlur. Nei, nei og aftur nei sagði Bjarni sem í dag er forsætis-, félags-, vinnumarkaðs- og matvælaráðherra í starfsstjórn.
Á meðan pitsan var í ofninum rakti Bjarni þá frægustu menn sem hann hefur hitt á lífsleiðinni. Þetta voru Bandaríkjaforsetarnir Joe Biden og Donald Trump og loks auðkýfingurinn Elon Musk.
Pitsan lukkaðist svo vel að viðstaddir tilkynntu Bjarna að hann væri klárlega á rangri hillu í lífinu.
„Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi. Hann á að vera að vinna á Pizzunni.
@sjalfstaedisflokkurinn Myndir þú panta þessa? #sjalfstæðisflokkurinn #kosningar2024 #fyp #fyrirþig ♬ JólaHúbbaBúbba – HubbaBubba