Þegar Stefán Einar Stefánsson, starfsmaður Morgunblaðsins, réðist heiftarlega á Þórð Snæ Júlíusson í þættinum Dagmálum með uppljóstrunum vegna 20 ára gamalla bloggfærslna hans sem voru allt í senn dónalegar, vanhugsaðar og heimskulegar, hefur hann örugglega ekki ætlað að hjálpa Samfylkingunni við atkvæðaöflun á lokaspretti kosningabaráttunnar. Nú hefur það hins vegar gerst að vegna uppljóstrana Stefáns Einars, sem mörgum þóttu reyndar ganga allt of langt, að Þórður Snær hefur stigið til hliðar úr þriðja sæti hjá Samfylkingunni í Reykjavík norður og dregið sig út úr pólitískum afskiptum. Það gerðist síðastliðinn laugardag og eftir það hefur fylgi Samfylkingar vaxið með marktækum hætti ef marka má nýja könnun Maskínu sem Bylgjan birti í dag.
Orðið á götunni er að það hafi fráleitt verið ætlun Stefáns Einars að ýta undir verulega fylgisaukningu Samfylkingarinnar með aðför sinni að frambjóðandanum fyrrverandi. Öllum er ljóst að Stefán er stækur andstæðingur Samfylkingarinnar sem á undanförnum mánuðum hefur smám saman verið að hrifsa til sín stöðu forystuflokks íslenskra stjórnmála frá flokki Stefáns, Sjálfstæðisflokknum, sem rær nú lífróður – reyndar í öfuga átt fram af hengifluginu.
Árásin á Þórð Snæ var vel skipulögð hjá Stefáni Einari og skrímsladeild Sjálfstæðisflokksins. Ætlunin var að skaða Samfylkinguna sem var svo grunnhyggin að stilla Þórði upp á lista sinn. En Stefán Einar sá ekki fyrir að Þórði Snæ yrði hreinlega ýtt út sem gerir það að verkum að flokkurinn hefur uppskorið þakklæti fyrir og nokkra virðingu. Það er meira en unnt er að segja um Sjálfstæðisflokkinn sem aðhefst ekkert gagnvart Jóni Gunnarssyni, nú aðstoðarmanni Bjarna Benediktssonar, eftir að hann varð uppvís að spillingaráformum og sóðalegu valdabraski.
Nýjasta könnun Maskínu sýnir að fylgi Samfylkingar hefur aukist um tæp 3 prósentustig á einni viku frá því að Þórði Snæ var ýtt út af framboðslista flokksins. Verði það niðurstaða kosninganna mun flokkurinn hljóta tveimur þingmönnum meira en leit út fyrir einni viku. Þannig hafa skrímsladeildartilburðir Stefáns Einars og félaga styrkt Samfylkinguna sem nemur tveimur þingsætum. Það munar um minna og þetta hefur örugglega aldrei verið ætlun þeirra félaga.
Hljóti Samfylkingin 22,7 prósent greiddra atkvæða, eins um umrædd könnun Maskínu sýnir, er mjög líklegt að flokkurinn nái fjórum þingmönnum í Reykjavíkurkjördæmi norður. Eftir að Stefán Einar lagði sitt af mörkum til að ryðja Þórði Snæ úr þriðja sæti listans er fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, Sigmundur Ernir Rúnarsson, kominn í fjórða sætið og líklegur til að verða þingmaður Samfylkingarinnar í kjördæminu.
Orðið á götunni er að Stefán Einar og skrímsaldeildin á Morgunblaðinu hafi hreint ekki hugsað út í þann möguleika að þeir myndu greiða leið fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins inn á Alþingi um næstu mánaðamót. Það er þeim örugglega ekki að skapi.