Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn sósíalískur Evrópuflokkur sem vill auka áhrif Evrópusambandsins hér á landi t.d. með innleiðingu bókunar 35. Heimilin og fyrirtækin eiga ekki lengur skjól í Valhöll, fyrir löngu er búið að henda þeim þaðan út. Lýðræðisflokkurinn er tilraun til afruglunar íslenskra stjórnmála, tilraun til að koma þeim aftur niður á plánetuna Jörð. Arnar Þór Jónsson, formaður Lýðræðisflokksins, mætir í kosningasjónvarpsþátt Eyjunnar.
„Ég lít á þetta sem uppgjör við þá pólitík sem sósíalistar hafa rekið og aðrir flokkar á Íslandi hafa rekið í svona mismildari mynd. Ég lít á þetta sem er að gerst í Bandaríkjunum sem svo að meirihluti bandaríska almennings, þetta er uppgjör við þennan woke sósíalíska hugsunarhátt. Fólk er minna að hugsa um það sem heitir loftslagsmál, minna að hugsa um það hvort karlar geti breytt sér í konur og hafa meiri áhyggjur bara af því hvort það geti borgað reikningana sína, gefið fjölskyldunni að borða og búið í tiltölulega öruggu umhverfi,“ segir Arnar Þór.
Hann segir Trump hafa lofað ákveðnu uppgjöri við hernaðarhyggju sem riðið hafi húsum í bandarískum stjórnmálum og smitast yfir á íslensk stjórnmál. „Mér sýnist að fólk sé í raun og veru að hafna þessum, sem mætti kalla, gervistjórnmálum þar sem er búið að rugla svo margt í því sem ætti að vera alvöru hagsmunamál heimilanna. Píratar hafa t.d. farið framarlega í flokki þeirra sem hafa verið að rugla pólitíska umræðu á Íslandi og ég lít á framboð Lýðræðisflokksins sem nokkurs konar tilraun til afruglunar til að koma stjórnmálunum niður á plánetuna Jörð, til að við förum að einbeita okkur að því að bæta hag íslenskra heimila, íslenskra fyrirtækja, íslenskra iðnframleiðenda, iðnrekenda, það þarf að efla íslenskan iðnað. Það þarf að standa vörð um íslenska náttúru og við megum ekki láta erlend stórfyrirtæki gera Ísland að einhvers konar ruslakistu.“
Hann segir Lýðræðisflokkinn vera á móti valdboði, á móti miðstýringu, á móti skerðingu á frelsi fólks til orðs og athafna. á móti skattahækkunum. Hann hefur á orði að það sé leitt að fulltrúi sósíalista hafi ekki séð sér fært að mæta til að ræða við hann.
Hann er spurður hvort það veiki ekki þau sjónarmið sem hann stendur fyrir, og margir telja að hann eigi sammerkt með Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, að þau skuli ganga splundruð til kosninga.
„Ég hef horft á þetta að þetta væri nauðsynlegt skref á þessum tímapunkti í lýðveldissögunni vegna þess að ég horfi yfir sviðið og sé engan raunverulegan málsvara hægristefnu í stjórnmálum og raunverulegan málsvara einstaklingsfrelsis og takmarkaðs ríkisvalds. Ég átti viðræður við Miðflokkinn. Þeir vilja ekki stíga yfir á hægri vænginn. Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn einhvers konar sósíalískur Evrópuflokkur. Þeir vilja auka áhrif Evrópusambandsins á Íslandi og ef menn hafa efasemdir um það þá geta þeir skoðað í fyrsta lagi frumvarpið um bókun 35 og í öðru lagi hvernig þeir virðast líta svo á að það jafngildi einhvers konar öfgum að vilja standa vörð um þjóðríkið og hagsmuni Íslands í þessu stóra mengi sem sósíalistarnir og aðrir vilja koma á, sem er alþjóðlegt skrifræði – alþjóðlegt skrifræði og alþjóðlegt skrifstofuveldi þar sem völd og áhrif og rödd þjóðríkjanna er jaðarsett. Þetta er hinn nýi Sjálfstæðisflokkur að boða og þar fara fremst í flokki formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.“
Arnar Þór segist segja við sitt fólk í Lýðræðisflokknum að íslensk fyrirtæki og íslensk heimili eigi ekki lengur skjól í Valhöll, það sé löngu búið að henda þeim þaðan út.