Dómur hefur verið kveðinn upp í Landsrétti yfir manni sem var sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hættubrot, umferðarlagabrot, vopnalagabrot og brot gegn lögreglulögum. Landsréttur staðfesti dóminn fyrir utan fyrstnefnda brotið en rétturinn sýknaði manninn af því. Hættubrotið hafði að sögn héraðsdóms falist í því að hafa veitt tveimur brotaþolum eftirför á bifreið sinni og reynt að þvinga þá út af veginum. Landsréttur sýknaði manninn hins vegar meðal annars á þeim grundvelli að framburður brotaþolanna meintu hefði verið óskýr og að maðurinn hafi verið á miklu minni bíl en þeir þegar hann hafi ekið á eftir þeim.
Málsatvik eru rakin mjög ítarlega í dómum Landsréttar og Héraðsdóms Reykjavíkur og því aðeins hægt að stikla á stóru hér. Atburðir þessir áttu sér stað sumarið 2021 í Kjósinni. Brotaþolarnir meintu, karl og kona, og maðurinn þekkjast en áður en þetta átti sér stað höfðu þau deilt lengi um eignarrétt á landi, landamerki og girðingar.
Fyrir Landsrétti sagði maðurinn að annar hinna meintu brotaþola hafi komið að bæ hans og varpað á hann ljósi með kösturum bifreiðar sinnar og byrjað að taka myndir. Honum hafi þótt þetta undarlegt og opnað út en verið fáklæddur eftir að hafa verið nýkominn úr baði. Hvolpur sem hann hafi verið að passa hafi þá sloppið út. Hinn meinti brotaþoli hafi reynt að keyra á hundinn. Hann hafi þá hlaupið út til að stöðva hann og ræða við hann en skott hundsins hafi á endanum orðið undir bílnum með þeim afleiðingum að það brotnaði.
Maðurinn sagði að hinn meinti brotaþoli hafi þá orðið hræddur og ekið á brott. Hann hafi þá sjálfur ekið á eftir honum að gamla bænum í Þúfukoti sem sá maður eigi. Hinn meinti brotaþoli hafi þá aftur ekið á brott.
Miðað við framburð mannsins ákvað hann á þessum tímapunkti að láta af því að reyna að ná tali af hinum meinta brotaþola. Hann sagðist hafa ekið á eftir honum og ætlað sér í Kaffi Kjós. Hinn meinti brotaþoli hafi hins vegar honum að óvörum ekið sömu leið og skyndilega farið að hægja á sér og þá hafi farþegi í bílnum, annar af hinum meintu brotaþolum, tekið upp myndskeið af akstri hans. Maðurinn sagði að þetta akturslag hins meinta brotaþola hafi tafið hann. Hann hafi verið að reyna að ná í Kaffi Kjós fyrir lokun.
Maðurinn sagðist hafa reynt að aka fram úr en þá hafi hinn meinti brotaþoli ekið í veg fyrir hann með þeim afleiðingum að hann lenti sjálfur utan vegar en náð þó aftur að komast upp á hann. Hann hafi ekið að Kaffi Kjós sem hafi reynst lokað og hann því ekið áfram. Þegar hann hefði komið að vegamótum við Meðalfellsveg hafi hann orðið var við lögreglubifreiðar og sjúkrabifreiðar og þá talið að umferðarslys hafi átt sér stað. Á endanum hafi hann verið stöðvaður með vopnavaldi og handtekinn.
Maðurinn sagði fyrir Landsrétti ekki hafa áttað sig á að lögreglan væri komin á vettvang til að hafa afskipti af honum. Hinn meinti brotaþoli hafi ítrekað ekið í veg fyrir sig og það skýri af hverju bílarnir hafi rásað á veginum. Maðurinn viðurkenndi að hafa haft hníf í bílnum sem lögreglan lagði hald á enda þurfi hann sem bóndi að nota hnífa við sín daglegu störf. Maðurinn viðurkenndi einnig að hafa ekið bílnum án gildra ökuréttinda.
Í dómnum er síðan lýst með ítarlegum hætti myndbandsupptöku hinna meintu brotaþola af akstri mannsins á eftir þeim og aksursleiðin rakin út frá henni og framburðum málsaðila.
Segir í dómnum að meta verði framburði út frá fyrri deilum málsaðila og þess að maðurinn hafi orðið margsaga um tildrög þess að hann ók á eftir hinum meintu brotaþolum.
Málsaðilum og lögreglumönnum sem komu á vettvang bar hins vegar saman um að akstur beggja bifreiða hafi verið hægur, um 30-60 kílómetrar á klukkustund, en á veginum hafi hámarkshraði verið 90 kílómetrar á klukkustund. Landsréttur vísar einnig til framburðar þess meinta brotaþola sem ók um að hann hafi ekið viljandi hægt til að maðurinn kæmist ekki fram úr honum eins og hann hann hafi reynt. Vildi brotaþolinn meinti meina að maðurinn hefði ögrað sér með því að aka mjög nálægt hans bifreið.
Í dómi Landsréttar er því næst vikið sérstaklega að stærðarmuninum á bifreiðunum:
„Samkvæmt gögnum máls ók ákærði í umrætt sinn 19 ára gamalli fólksbifreið af gerðinni Toyota Corolla en bifreið brotaþola var á hinn bóginn nýleg pallbifreið af gerðinni Dodge Ram 3500. Mikill stærðarmunur er á bifreiðunum en eiginþyngd bifreiðar brotaþola er tæplega fjórum sinnum meiri en bifreiðar ákærða. Skriðþungi bifreiðar brotaþola er því mun meiri en bifreiðar ákærða. Þá er hún mun lengri og breiðari en bifreið ákærða og loks liggur fyrir í gögnum málsins að henni hefur verið breytt og er hún á 40 tommu dekkjum. Bifreið brotaþola er því mun hærri en bifreið ákærða eins og glöggt má sjá af þeim myndupptökum sem liggja fyrir í málinu.“
Segir í dómnum að í ljósi þessa stærðarmunar á bílunum hafi maðurinn einfaldlega ekki verið í aðstöðu til að hrekja hina meintu brotaþola út af veginum. Þar við bætist áðurnefnd myndbandsupptaka sem Landsréttur segir sýna fram á að akstur mannsins hafi hvorki verið vítaverður né ógnandi en vissulega hafi hann verið ögrandi. Vísar Landsréttur einnig til framburðar hinna meintu brotaþola fyrir héraðsdómi sem hafi ekki verið skýr um að maðurinn hafi reynt að þvinga þau út af veginum. Framburður lögreglumanna renni heldur ekki stoðum undir þetta.
Maðurinn var því sýknaður af því hættubroti sem hann var sakfelldur fyrir í héraðsdómi. Þessi meinta háttsemi hans var einnig heimfærð undir brot á umferðarlögum í dómi héraðsdóms og hann því einnig sýknaður af þeim þætti málsins.
Sakfelling mannsins fyrir brot á umferðarlögum fyrir að hafa ekið án ökuréttinda, brot á vopnalögum með því að hafa hníf af tiltekinni stærð í vörslu sinni og brot á lögreglulögum fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu stendur hins vegar í ljósi játningar mannsins á öllum þessum brotum.
Landsrétti þótti við hæfi að sekta manninn um 100.000 krónur ekki síst í ljósi fyrri brota hans á umferðarlögum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði hins vegar dæmt hann í fjögurra mánaða skilorðsbundið fangelsi.