Lýstar kröfur í félagið LEV102 ehf voru rúmlega 171 milljón króna. Eignarhaldsfélagið stóð að baki reksturs veitingastaðarins Héðinn Kitchen & Bar að Seljavegi 2 í Vesturbæ Reykjavíkur.
Fyrr á þessu ári var greint frá gjaldþroti veitingastaðarins en þá var talið að kröfurnar næmu um 105 milljónum króna. Í Lögbirtingablaðinu í dag er greint frá því að við skiptalok búsins næmu kröfurnar 171.288.445 krónum. Engar eignir fundust í búinu.
Eigandi félagsins, Karl Viggó Vigfússon, stofnaði veitingastaðinn með Elíasi Guðmundssyni árið 2021. Eftir úrskurð héraðsdóms um gjaldþrot í janúar mánuði í fyrra greindi Karl frá því við mbl.is að staðurinn myndi halda áfram í óbreyttri mynd í nýju félagi. Staðnum hefur hins vegar verið lokað.