Þetta þýðir að enn einu sinni fóru Vesturlönd yfir hin svokölluðu „rauðu strik“ Pútíns þegar kemur að stuðningi við Úkraínu. Það hefur aldrei haft neina þýðingu að farið hafi verið yfir þessi strik því hótanir Pútíns hafa reynst innistæðulausar með öllu.
Pútín brást að vísu við í vikunni með að breyta reglum um kjarnorkuvopnanotkun hers síns og eru viðmiðin fyrir beitingu þeirra nú ekki eins ströng og áður.
Það er því kannski engin furða að sumir spyrji sig hvort þriðja heimsstyrjöldin sé í uppsiglingu og hvort einhverjar líkur séu á að hægt verði að koma á friði á milli Rússlands og Úkraínu.
TV2 leitaði til tveggja sérfræðinga, Kristian Søby Kristensen og Claus Mathiesen til að fá álit þeirra á þessu. Þeir eru báðir hernaðarsérfræðingar og fylgjast vel með gangi mála.
Þeir voru sammála um að eins og staðan er núna, þá stefni ekki í heimsstyrjöld en þeir eru einnig sammála um að ekki sé útlit fyrir frið í náinni framtíð.
Þeir sögðu að þrátt fyrir að Úkraínumenn hafi fengið grænt ljós á að skjóta bandarískum flugskeytum á rússneskt landsvæði, þá breyti það ekki miklu og hvorki Rússar né Bandaríkjamenn hafi áhuga á stigmögnun stríðsins.
Kristensen sagði að miðað við núverandi stöðu mála þá þjóni það engum tilgangi fyrir Rússa að beita kjarnorkuvopnum.
Mathiesen sagðist eiga erfitt með að sjá að friðarviðræður á milli Rússa og Úkraínumanna hefjist í náinni framtíð. Meðal þess sem geri að verkum að það sé útilokað, sé að Úkraínumenn séu með hluta Kúrsk-héraðs á sínu valdi og á meðan svo sé, þá muni Rússar ekki setjast við samningaborðið. Þá vilji Úkraínumenn ekki ræða um frið í kjölfar innlimunar fjögurra úkraínskar héraða í rússneska ríkjasambandið.
Hann sagði að átökin muni því halda áfram en hversu lengi ráðist af hversu vel Vesturlönd muni styðja við bakið á Úkraínu.