Jú, þar sást nýlega til ferða langrar járnbrautalestar sem var að flytja norðurkóreskar fallbyssur af stærstu gerð.
Mynd af þessu var birt á rússneskri Telegram-rás og síðar hjá iStories og miðlum sem fjalla um hernaðarmál.
Joost Oliemans, sérfræðingur og höfundur tveggja bóka um norðurkóreska herinn, sagðist í samtali við NK News telja að myndin sé ófölsuð.
Ekki er vitað með vissu hvert verið var að flytja fallbyssurnar en út frá tölum um tjón rússneska hersins í stríðinu í Úkraínu auk vitneskju um að Norður-Kórea hefur útvegað Rússum skotfæri, vopn og hermenn, þá liggur auðvitað beint við að telja að fallbyssurnar hafi verið á leið á vígstöðvarnar í Úkraínu eða í rússneska Kúrsk-héraðinu en Úkraínumenn hafa hluta þess á sínu valdi.
Á myndinni sjást tvær M1978 eða M1989 „Koksan“ 170 mm fallbyssur. Þetta stórar fallbyssur sem geta skotið venjulegum fallbyssukúlum allt að 40 km og hreyfilknúnum kúlum geta þær skotið allt að 60 km. En stærsti veikleiki þeirra er að þær geta bara skotið einu til tveimur skotum á hverjum 5 mínútum.
Í umfjöllun Financial Times kemur fram að Norður-Kórea hafi látið Rússa fá 50 M1989 fallbyssur auk 20 240 mm flugskeytakerfa.
En spurningin er hvort þessar fallbyssur séu eitthvað sem muni gagnast Rússum mikið. Shin Seung-ki, sem er sérfræðingur hjá Korea Institute for Defense Analyses, sagði í samtali við NK News að líklega séu Rússar að fá fallbyssurnar vegna þess að þeirra eigin fallbyssur séu annað hvort ónýtar eða úr sér gengnar. Hann sagðist telja að það séu norðurkóreskir hermenn sem muni stýra þeim.
Hyun-seung Lee, sem er landflótta Norður-Kóreumaður búsettur í Suður-Kóreu, sagði í samtali við NK News að fallbyssurnar séu auðvelt skotmark í nútímastríði. „Kim Jong-un gerir Pútín að fífli með því að losa sig við norðurkóreskt drasl úr vopnabúrinu sínu. Þessar 170 mm fallbyssur, sem hann er að senda þeim, eru gamlar, hægar, veikburða og viðkvæmar,“ sagði hann og bætti við að það taki hálfa klukkustund að stilla þeim upp fyrir notkun. Áður en hann flúði land starfaði hann hjá menntunardeild norðurkóreska hersins.