Á Íslandi hefur löngum mörgum þótt skipta máli að þingmenn einstakra kjördæma, sérstaklega á landsbyggðinni séu búsettir í kjördæminu eða komi a.m.k. frá stað sem tilheyri viðkomandi kjördæmi. Í vikunni birti Gísli Stefánsson, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, sem skipar 4. sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi, fyrir komandi alþingiskosningar, myndband á Facebook-síðu sinni þar sem því er haldið fram að eini oddvitinn í kjördæminu sem búi í því sé Guðrún Hafsteinsdóttir, sem leiðir lista Sjálfstæðismanna. DV hefur í tilefni af þessu myndbandi tekið saman hversu mikið sé um það að oddvitar flokkanna í hverju kjördæmi búi ekki í því og þá er miðað við skráða búsetu á framboðslistum í auglýsingu Landskjörstjórnar en ekki er tekið tillit til hvort viðkomandi oddviti sé uppruninn úr sínu kjördæmi eða eigi þar annað heimili en það sem skráð er í auglýsingunni.
Reykjavík:
Höfuðborgin verður að teljast sérstakt tilfelli þegar kemur að búsetu þingmanna þar sem um er að ræða sama þéttbýliskjarnann, sem skipt er í tvö kjördæmi og því í raun óhjákvæmilegt að oddvitar flokkanna búi sitt á hvað á milli kjördæma en formsins vegna er ráð að skoða búsetu oddvitanna eins og í öðrum kjördæmum.
Þegar kemur að Reykjavík suður býr oddviti Sjálfstæðisflokksins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir í Reykjavíkurkjördæmi norður. Það sama á við um Sönnu Magdalenu Mörtudóttur oddvita Sósíalistaflokksins og Björn Leví Gunnarsson oddvita Pírata. Oddvitar annarra flokka búa í kjördæminu.
Hvað varðar Reykjavíkurkjördæmi norður þá býr Ásmundur Einar Daðason oddviti Framsóknarflokksins í Mosfellsbæ, sem tilheyrir Suðvesturkjördæmi. Það sama á við um Jóhannes Loftsson oddvita Ábyrgrar framtíðar. Ragnar Þór Ingólfsson oddviti Flokks fólksins býr í Reykjavík suður. Það sama á við um Lenyu Rún Taha Karim oddvita Pírata og Finn Ricart Andrason oddvita Vinstri grænna. Oddvitar annarra flokka búa í kjördæminu.
Þegar kemur að Suðvesturkjördæmi þá er oddviti Sósíalistaflokksins Davíð Þór Jónsson sá eini sem ekki býr þar en hann er búsettur í Reykjavík.
Í Norðvesturkjördæmi er aðeins einn oddviti skráður til heimilis utan kjördæmisins, í auglýsingu Landskjörstjórnar, en það er Guðmundur Hrafn Arngrímsson oddviti Sósíalistaflokksins sem býr í Reykjavík.
Í Norðausturkjördæmi býr Sigurjón Þórðarson oddviti Flokks fólksins á Sauðárkróki sem tilheyrir Norðvesturkjördæmi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson oddviti Miðflokksins býr í Garðabæ sem tilheyrir eins og flestir eflaust vita Suðvesturkjördæmi. Theodór Ingi Ólafsson oddviti Pírata býr í Reykjavík en aðrir oddvitar búa í kjördæminu.
Í Suðurkjördæmi eru eins og í Norðausturkjördæmi þrír oddvitar af tíu skráðir til heimilis utan kjördæmisins í auglýsingu Landskjörstjórnar.
Halla Hrund Logadóttir oddviti Framsóknarflokksins býr í Reykjavík. Ásthildur Lóa Þórsdóttir oddviti Flokks fólksins býr í Garðabæ og Víðir Reynisson oddviti Samfylkingarinnar er sömuleiðis til heimilis í Suðvesturkjördæmi, nánar tiltekið í Kópavogi.
Það eru því nokkrar ýkjur að halda því fram að Guðrún Hafsteinsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, sé eini oddvitinn sem býr í kjördæminu eins og gert var í áðurnefndu myndbandi Gísla Stefánssonar bæjarfulltrúa flokksins í Vestmannaeyjum.