Þetta segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, í niðurlagi langrar greinar sinnar sem birtist í Morgunblaðinu í dag undir yfirskriftinni Umfang og eðli hælisleitendamála.
Sigmundur viðrar þar áhyggjur sínar af stöðu mála hér á landi og varpar ljósi á stefnu Miðflokksins þegar kemur að málefnum flóttamanna og umsækjanda um alþjóðlega vernd. Sigmundur segir að á undanförnum árum hafi mannfjöldi á Íslandi aukist hraðar en nokkru sinni áður í sögu landsins. Íslendingum hafi þó fjölgað allt of lítið. „Viðbótin hefur fyrst og fremst orðið með flutningi erlendra ríkisborgara til landsins,“ segir hann.
„Þessu hefur fylgt gríðarlegt aukið álag á innviði landsins á skömmum tíma. Hvort sem litið er til heilbrigðiskerfisins, menntamála, löggæslu, húsnæðismarkaðar eða ótal annarra þátta hefur mikilvægasta þjónusta samfélagsins orðið fyrir gríðarlegu raski. Þótt beinn árlegur kostnaður við utanumhald hælisleitendakerfisins nemi hátt í 30 milljörðum króna er kostnaðurinn sem fylgir svo miklu auknu álagi á lítið samfélag miklu meiri. Þá eru ekki talin langtímaáhrifin af því ef samfélag sundrast og glatar því sem sameinar það. Slíkt tjón er ómælanlegt í peningum og verður aldrei bætt.“
Sigmundur segir að þetta sé sérstakt áhyggjuefni og krefjist mikillar varfærni þegar þjóðin sem á í hlut er agnarsmá. „Þá geta stórar breytingar gerst mjög hratt,“ segir hann.
Hann fer svo yfir þær breytingar sem orðið hafa á síðustu árum og segir að það hafi „spurst hratt út“ að ef þeir sem eru stöðvaðir á landamærunum og biðja um hæli fari þeir inn í „óhemju þungt og dýrt hælisleitendakerfi með allri þeirri þjónustu, aðstoð og áfrýjunarúrræðum sem hið óraunhæfa íslenska kerfi býður upp á.“
Hann segir að vissulega séu ekki allir sem sótt hafa um landvist hælisleitendur. Hlutfallið sé þó miklu hærra en haldið hefur verið fram í stjórnmálaumræðu að undanförnu. „Árið 2022 fjölgaði íbúum landsins um 8.670. Það ár sóttu 4.520 um hæli á Íslandi. Árið 2023 fjölgaði um 6.790. Það ár voru hælisumsækjendur 4.164.“
Er það mat Sigmundar að allt þetta geri okkur ókleift að vernda velferðarkerfið og samfélagið og láta það virka sem skyldi. Hann varpar svo ljósi á stefnu Miðflokksins í þessum efnum og segir meðal annars:
„Enginn ætti að mæta til Íslands til að sækja um hæli. Geri menn það skal þeim strax vísað aftur til þeirra öruggu landa sem þeir komu í gegnum. Ólíkt mörgum Evrópuþjóðum höfum við litla þörf fyrir að senda fólk í móttökustöðvar utan álfunnar. Enginn kemur til Íslands öðruvísi en að hafa farið í gegnum önnur örugg lönd og því beitum við einfaldlega rétti okkar gagnvart m.a. Dyflinnarsáttmálanum og mannréttindasáttmála Evrópu.“
Þá segir Sigmundur að flugfélög skuli skila farþegalistum í samræmi við lög og reglur, ella fljúgi þau ekki til Íslands. Þá segir hann að þeir sem „týna“ skilríkjum á leiðinni skuli fara strax til baka með næsta flugi á ábyrgð flugfélagsins.
„Þetta eitt og sér fer langleiðina með að leysa vandann og gera okkur kleift að ná stjórn en fleira þarf þá að fylgja,“ segir hann og vísar til Danmerkur.
„Þeir sem vilja verða hluti af samfélaginu þurfa að sýna vilja til að aðlagast. Fremji þeir alvarleg brot eða brjóti ítrekað af sér skal þeim vísað úr landi. Fullur aðgangur að velferðarkerfinu fæst ekki nema með a.m.k. sömu kvöðum og lagðar hafa verið á Íslendinga sem búið hafa lengi erlendis og flytja heim. Þeir sem sækja um íslenskan ríkisborgararétt þurfa að sýna fram á grunnþekkingu á íslenskri tungu og samfélaginu.“
Sigmundur segir að endingu að Miðflokkurinn hafi lengi bent á í hvað stefndi og oft fengið bágt fyrir.
„Oftar en ekki var reynt að þagga niður umræðuna með því að kasta fram verstu stimplum sem hægt var að finna til að hræða fólk frá umræðunni. Við létum það ekki stoppa okkur því við erum ekki í þessu til að elta tíðarandann heldur til að berjast fyrir því sem við trúum að sé rétt.“