Í dag var kveðinn upp í Héraðsdómi Suðurlands dómur í óvenjulegu skattalagamáli en þar voru þrjár konur ákærðar fyrir að hafa ekki gert grein fyrir í skattframtölum sínum gífurlega háum fjárgjöfum sem þær voru sagðar hafa þegið frá erlendum auðmanni sem er kallaður Billy og býr á Bahamaeyjum.
Tvær hinna ákærðu eru mæðgur, móðirin er á sjötugsaldri en dóttir hennar ofarlega á fertugsaldri. Þriðja konan, sem er fyrrverandi vinkona dótturinnar, er um þrítugt.
Móðirin var ákærð fyrir að hafa staðið efnislega skil á röngum skattframtölum gjaldárin 2015 til 2018 og látið undir höfuð leggjast að telja fram sem skattskyldar gjafir greiðslur frá Billy upp á samtals rúmlega 52 milljónir króna.
Konan neitaði sök og bar því við að um lán hafi verið að ræða. Einnig tefldi hún fram þeirri vörn að fjármunirnir hefðu runnið inn í fyrirtæki hennar sem er annar lögaðili en hún. Dómurinn hafnaði þeim röksemdum og einnig því að um lán hefði verið að ræða þar sem konan var ekki talin hafa lagt fram nein haldbær gögn því til sönnunar. Var konan því sakfelld.
Dóttir konunnar játaði sök í málinu og var sakfelld samkvæmt ákæru fyrir að hafa ekki talið fram fjárgjafir upp á tæplega 30 milljónir króna sem hún þáði frá manninum fyrir gjaldárin 2016 og 2018.
Þriðji sakborningurinn, kona um þrítugt, fékk langmestu greiðslurnar frá Billy eða samtals rúmlega 131 milljón króna á árunum 2016-2017. Var hún ákærð fyrir að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum fyrir gjaldárin 2017 og 2018 og ekki talið þessar greiðslur fram sem gjafir.
Það er þó höfuðmunur á málsvörn þessarar konu og mægðnanna að hún gerði grein fyrir þessum greiðslum í skattframtölum sínum en taldi þær fram sem skuldir. Við rannsókn málsins lagði hún fram lánasamning við Billy og gat sýnt fram á að hún hafi endurgreitt honum brot af skuldinni. Einnig gat konan sýnt fram á með upplýsingum um rekstur fyrirtækis hennar að hún geti mögulega gert upp skuldina í framtíðinni.
Konan var sýknuð af öllum ákærum, sem sætir tíðindum. Verjendur hennar voru Sævar Þór Jónsson hæstaréttarlögmaður og Kristján Gunnar Valdimarsson lögmaður.
Við rannsókn málsins var reynt að fá fram vitnisburð Billys sjálfs og aðstoðarkonu hans með litlum árangri þó að aðstoðarkonan hafi veitt einhverjar upplýsingar. Í dómnum er gagnrýnt að Skattrannsóknarstjóri og Héraðssaksóknari hafi ekki gert frekari tilraunir til að afla gagna um málið frá heimalandi mannsins, Bahamaeyjum, en fyrir liggur að á milli Íslands og Bahamaeyja er í gildi samningur um upplýsingaskipti um skattamál.
Sem fyrr segir voru mæðgurnar sakfelldar og sitja þær eftir í erfiðri stöðu þar sem þær voru dæmdar til hárra fjársekta. Móðirin var dæmd í 10 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 42 milljóna króna í fjársekt til ríkissjóðs. Greiði hún ekki sektina innan fjögurra vikna þarf hún að sitja í 360 daga í fangelsi, eða rétt tæplega ár.
Dóttir hennar var dæmd í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða 22 milljónir króna í fjársekt. Þarf hún að sitja 300 daga í fangelsi ef hún greiðir ekki sektina innan fjögurra vikna.
Móðirin þarf að greiða 3.030.216 kr. í sakarkostnað en dóttirin 2.659.616 kr.
Sú sem var sýknuð í málinu ber engan málskostnað og málsvarnarlaun verjenda hennar, þeirra Sævars Þór Jónssonar og Kristjáns Gunnars Valdimarssonar, greiðast úr ríkissjóði.