Alþingi samþykkti á föstudaginn lög sem fella úr gildi lög um Bankasýslu ríkisins. Samkvæmt nýju lögunum falla lög um Bankasýsluna úr gildi 1. janúar 2025. Þar með heyrir Bankasýslan sögunni til.
Frá 1. janúar á næsta ári mun fjármálaráðherra fara beint með hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Eitt af hlutverkum Bankasýslunnar var að skipa fulltrúa ríkisins í bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja.
Samkvæmt nýju lögunum mun ráðherra framvegis skipa þriggja manna valnefnd, eina eða fleiri, til þriggja ára í senn til að gera tillögur til ráðherra um einstaklinga sem koma til greina til setu fyrir hönd ríkisins í annars vegar bankaráðum og stjórnum fjármálafyrirtækja og hins vegar stjórnum stærri opinberra hlutafélaga og sameignarfyrirtækja.
Í hlutarins eðli liggur að starf Jóns Gunnars Jónssonar, forstjóra Bankasýslunnar, er lagt niður frá og með 1. janúar 2025, en samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar er hann eini starfsmaður stofnunarinnar. Mun hann njóta biðlauna í sex mánuði.