Maður sem samkvæmt nýrri bók um Geirfinnsmálið er mögulegur banamaður Geirfinns Einarssonar er enn á lífi og meintur sjónarvottur að átökum sem eiga að hafa leitt til dauða Geirfinns er það sömuleiðis. Nöfn beggja og tengiliðaupplýsingar ásamt ýmsum fleiri upplýsingum er að finna í gagnapakka sem höfundur bókarinnar „Leitin að Geirfinni“, hefur reynt að koma í hendur yfirvalda í dag.
Höfundurinn Sigurður B. Sigurðsson (höfundarnafn Sigurd Bjørgvin) segir að upplýsingar sem hann hefur tekið saman í pakka fyrir yfirvöld eigi að duga til þess að málið verði upplýst ef lögregla sýnir vilja til að rannsaka það.
„Já, eins og þetta lítur út núna, nema að eitthvað gerist, t.d. að einhver málsaðili hrökkvi upp af, þá miðað við gögnin og þær upplýsingar sem liggja fyrir og miðað við að flestir, en þó ekki allir, sem eiga hlut að máli haldist á lífi, þá liggur ekki annað fyrir en þetta sé auðleyst mál,“ segir Sigurður í viðtali við DV.
Sigurður segir að meðal þeirra aðila sem nefndir eru á nafn í gögnunum sé barnsmóðir Vilhjálms Svanbergs Helgasonnar, sem var elskhugi eiginkonu Geirfinns um það leyti sem Geirfinnur hvarf. Samkvæmt bókinni var Svanberg á heimili Geirfinns kvöldið sem Geirfinnur hvarf.
„Við yfirheyrðum ekki þessa konu en við ræddum stuttlega við hana,“ segir Sigurður og væntir þess að lögregla muni ræða betur við konuna. „Svanberg lét sig hverfa til Þýskalands og var þar í felum. Um síðir kom hann undir sig fótunum og stofnaði fjölskyldu, giftist konu og eignaðist barn. En síðan hverfur hann skyndilega aftur. Hún kann ekki svör við því. Við erum hins vegar ekki búin að rekja þennan þráð því við komumst í samband við konuna aðeins nokkrum dögum áður en bókin kom út.“
Að sögn Sigurðar hefur ekki gengið að ná tali af Svanberg sem hefur verið í felum og ekki viljað láta ná í sig. Tengiliðaupplýsingar á borð við símanúmer hans og netfang virka ekki og stjórnendur fyrirtækis sem hann vann hjá vita ekki um hann.
Að sögn Sigurðar hefur meintur banamaður Geifinns, samkvæmt bók Sigurðar, ekki látið ná í sig heldur. „Ég vil slá þann varnagla hér að allir eru saklausir uns sekt er sönnuð. En okkar gögn benda á þennan aðila og það á að vera verkefni lögreglu að ræða við hann,“ segir Sigurður. „Ég tel að þetta sé sami maður og tók Geirfinn upp í bíl þetta kvöld og ók honum heim,“ bætir hann við.
Sigurður segir að eiginleg yfirheyrsla og skýrsla af eiginkonu Geirfinns hafi ekki verið framkvæmd í kjölfar hvarfs hans. „Þeir virðast hafa verið heima hjá henni trekk í trekk án þess að skrifaðar væru um það skýrslur. Það voru að vísu tvær skýrslur, önnur er ein málsgrein um ekki neitt, ég veit ekki af hverju hún var tekin, en í hinni er fjallað um ýmislegt en þar er hvergi minnst á að maður hennar sé horfinn né af hverju hann hvarf.“
„Það er ákveðin mótstaða í gangi,“ segir Sigurður en ekki hefur tekist að afhenda yfirvöldum í dag þau gögn um Geirfinnsmálið sem hann vill koma á framfæri. Embætti Ríkissaksóknara hefur neitað að taka við gögnunum og sömuleiðis dómsmálaráðuneytið. „Báðir aðilar bera því við að þeir séu ekki rétti aðilinn til að taka á móti þessu. Þeir vísa á lögregluna en ég veit ekki hvað þeir meina. Þetta er náttúrulega bara vegna þess að þeir sem svara eru kannski ekki með það á hreinu. Ef maður talar við einhverja manneskju í ríkisstofnun þá fær maður stundum furðuleg svör í byrjun,“ segir Sigurður sem væntir þess að gögnin verið komin í hendur réttra aðila innan kerfisins fljótlega. Síðan væntir hann þess að lögregla taki upp rannsókn málsins.
Blaðamaður ítrekar spurningu um hvort lausn málsins sé fólgin í bókinni og þessum gögnum. Sigurður ítrekar svör sín um að hann telji að málið sé auðleyst fyrir lögreglu ef hún leggur sig fram við rannsókn þess og dregur hana ekki.
„Ég er nokkuð sannfærður um það en það verður að vera fyrir hendi vilji hjá lögreglu til að rannsaka. Ef þeirra vilji stendur til þess að finna einhvern stól til að stinga þessu undir eða til að humma þetta fram af sér, þá gerist auðvitað ekki neitt. En það er einmitt ástæðan fyrir því að þetta mál hefur verið óupplýst í 50 ár, það er búinn að vera sá gangurinn á því alla tíð að málið er aldrei almennilega rannsakað.“