Bjartmar Leósson, sem hefur viðurnefnið Hjólavíslarinn, vegna þrotlausrar vinnu sinnar og útsjónarsemi við að endurheimta stolin hjól og annað þýfi, og koma í hendur eigenda sinna, hefur gefið Krýsuvíkusamtökunum, sem sinna meðferð fíknisjúkra, hálfa milljón króna.
Bjartmar er ekki auðugur maður af fé en honum tæmdist fyrir skömmu arfur upp á eina milljón króna. Helminginn af peningunum notaði hann til að gera upp smáskuldir en afgangurinn, hálf milljón, rennur til þessara góðu og gagnlegu samtaka.
Bjartmar greinir frá þessum í Facebook-hópnum Hjóladót, sem er helsti vettvangur Bjartmars og samverkafólks hans til að auglýsa eftir stolnum munum. Mörg hinna seku í slíkum þjófnaðarmálum glíma við fíkn og Bjartmar er umhugað um lausn fíknivandans í samfélaginu. Hann gerir grein fyrir gjöfinni með þessum orðum:
„Mitt í öllu sem gengur á hér í borg varðandi marg ítrekaða þjófnaði ákveðins hóps, þá vil ég samt reyna eftir fremsta megni að sjá og skilja heildarmyndina í þessu. Þetta er í raun bara afleiðing fjársveltis og úrræðaleysis stjórnvalda sem gefur okkur þessa útkomu. Svo þegar ég fékk arf uppá milljón um daginn og gat klárað skuldir og fleira fyrir helminginn, þá fannst mér bara ljúft og skylt að skila restinni til Krýsuvíkur. Að öllum öðrum úrræðum ólöstuðum þá sé ég að þarna er verið að skerpa vel á málunum. Soldið eins og skip sem siglir gegnum ísilagt haf og ryður brautina. Á sama tíma er ég svo með bilaðan bíl og mótorhjól sem ég hefði vel getað lagað fyrir þessa summu. En þessi mál vega bara þyngra fyrir mér. Hef kynnst þónokkrum úr þessum hópi og þau hafa kennt mér mikið. Þetta væri ekki svona ef stjórnvöld myndu bara opna augun og sjá að það marg borgar sig á allan hátt að vera hér með sterk úrræði fyrir þennan hóp. Og ekki óttast kostnaðinn. Því hann væri margfalt minni en það sem samfélagið þarf að gjalda fyrir í dag eftir vanræksluna og úrræðaleysið sem ríkir í þessum málum.“