fbpx
Fimmtudagur 24.apríl 2025
Fréttir

Svíar fengu bækling með ráðleggingum fyrir mögulegt stríð – Þetta er það sem er mælt með að eiga heima

Kristinn H. Guðnason
Mánudaginn 18. nóvember 2024 21:30

Það er ekki hægt að hlaupa út í búð þegar styrjöld hefst.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sænsk yfirvöld sendu nýverið bækling á hvert heimili í landinu þar sem íbúar eru hvattir til að gera ráðstafanir ef stríð myndi hefjast. Einnig er varað við ýmsum öðrum ógnum, svo sem hryðjuverkum, netárásum og falsfréttaflutningi.

„Til að standast þessar ógnir verðum við að standa saman. Ef ráðist verður á Svíþjóð verða allir að gera sitt til að verja sjálfstæði Svíþjóðar og lýðræðið,“ segir í inngangi bæklingsins sem er 32 síður að lengd.

Svíþjóð og Finnland, sem hafa verið hlutlaus í áratugi, gengu inn í Atlantshafsbandalagið fyrir skemmstu. Var það viðbragð við árás Rússa inn í Úkraínu og þeirri hættu sem Evrópuríki telja að stafi af árásargirni Rússa.

Sameiginlegt viðbragð

Í bæklingnum er höfðað til samvisku þegnanna og bent á að mikilvægt sé að hver og einn leggi sitt af mörkum. Ekki síst til þess að styðja þá sem minna mega sín.

Bent er á ýmsar leiðir fyrir fólk til að styðja við sameiginlegt viðbragð þjóðarinnar. Svo sem að ganga í varnarsveitir, félagasamtök eða trúarleg hjálparsamtök. Að ljúka námskeiði í fyrstu hjálp, að gefa blóð og að halda á lofti umræðunni um sameiginlegt viðbragð, svo sem við nágranna og vini.

Bent er á að tvenns konar varnarsveitir starfi á vegum ríkisins, herinn og þjóðvarðlið. Ef hættuástandi verður lýst yfir er mögulegt að íbúar á aldrinum 16 til 70 ára verði kvaddir í þessar stofnanir. Slíkt yrði tilkynnt í útvarpi, sjónvarpi og með textaskilaboðum í síma. Þetta á einnig við um Svía búsetta erlendis og útlendinga sem eru búsettir í Svíþjóð. Þetta þýðir ekki að allir yrðu sendir á vígvöllinn. Sumum yrði fundin önnur störf til að styðja við varnir landsins.

Hljóði loftvarnaflauta er lýst í bæklingnum og sagt að ef loftárás hefjist verði fólk að leita skjóls í byrgjum eða öðrum vörðum stöðum. Opinber varnarbyrgi verja fyrir hita og höggbylgjum frá kjarnorkusprengjum. Einnig veita þau vörn gegn geislun, gasi og efnavopnum. Ef innrás hefst með landhernaði er möguleiki að fólki verði gert að rýma svæði.

Nauðsynjar

Íbúar eru hvattir til þess að vera undirbúnir undir að geta ekki sótt nauðsynjar. Þess vegna sé nauðsynlegt að eiga þær fyrir fyrstu daga mögulegs stríðs.

Hver manneskja þarf 3 lítra af vatni á dag, aðallega til drykkjar og eldunar. Ráðlegt er því að eiga vatn í stórum ílátum, helst geymt á dimmum og svölum stað. Gott er að athuga tvisvar á ári hvort að vatnið bragðist eða lykti illa. Ef svo skipta því út.

Rafmagnið og hitunin getur farið og því er ráðlegt að hafa nóg af hlýjum klæðnaði, svo sem ullarfötum, sokkum, vettlingum, húfum og treflum. Einnig að eiga teppi, svefnpoka, prímus, kerti, eldspýtur, kveikjara og slökkvitæki.

Samskipti eru ekki síður mikilvæg og því er ráðlegt að eiga útvarpstæki sem knúið er af rafhlöðum og auka rafhlöður, farsíma, hleðslubanka og hleðslutæki til að tengja við bíl. Þá er mælt með því að skrifa mikilvæg símanúmer niður á blað.

Þetta allt saman er til lítils ef ekki er til neinn matur. Sænsk yfirvöld mæla með því að fólk eigi orkumikinn mat, sem hægt er að elda fljótlega og með litlu vatni. Mælt er með því að fólk byggi upp birgðir samhliða venjulegum innkaupum heimilisins.

Mælt er með geymsluþolnum mat eins og kornmeti, pasta, hrísgrjónum, kúskús, kartöflumjöli, mjólkurdufti, tortillum, kexi og kryddi. Dósamat eins og tómötum, grænmeti, ávöxtum og tilbúnum réttum. Próteinríku fæði eins og þurrkuðu kjöti og fiski, kjúklingabaunum og túpuosti. Fituríkum mat eins og matarolíu, pestó, sólþurrkuðum tómötum, hnetusmjöri, hnetum og fræjum. Orkuríkum mat eins og búðingum, sultu, súkkulaði, hunangi, þurrkuðum ávöxtum og próteinstykkjum. Drykkjum eins og kaffi, te, heitu súkkulaði, bláberjasúpu, safa og mjólk. Barnamat eins og graut og ávaxtamauk.

Einhvern veginn þarfa að skila öllum þessum mat, jafn vel þó að rafmagn og vatn fari. Bent er á að fólk geti áfram pissað í klósettið þó að það sé ekkert vatn til að sturta niður. Gott er að eiga klósettpappír en honum verður að henda í ruslatunnu. Plastpoka er hægt að setja yfir klósettið og kúka í en ekki má sturta því niður heldur setja í ruslatunnu. Gott er að setja sag yfir saurinn áður en honum er hent. Einnig er ráðlagt að eiga nóg af blautþurrkum, handspritti, bleyjum, dömubindum og ruslapokum.

Gott er að hafa reiðufé sem dugar fjölskyldunni í eina viku. Ekki er verra ef það er í mismunandi seðlum. Einnig greiðslukort og rafrænar greiðsluleiðir.

Að lokum er mælt með að eiga eldsneyti, skyndihjálparkassa, vasaljós, höfuðljós, dósaopnara og sitthvað fleira. Hægt er að sjá bæklinginn á ensku hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 17 klukkutímum

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu

Kynferðisbrotamaður framseldur frá Íslandi – Dæmdur fyrir brot gegn barnungri stúlku í heimalandinu
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi

Guðni rifjar upp samtal: „Við hlustuðum ekki frekar en fyrri daginn“ – Segir lýsingar Úlfars vera sláandi
Fréttir
Í gær

Verslingar verulega ósáttir við Guðmund Inga – „Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna“

Verslingar verulega ósáttir við Guðmund Inga – „Við teljum þá hugsun bæði hættulega og ósanngjarna“
Fréttir
Í gær

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi

Alfa brýnir okkur til að tilkynna til barnaverndar ef okkur grunar að barn verði fyrir ofbeldi