Ákvörðun Bidens vekur athygli í ljósi þess að hann lætur af embætti eftir einn og hálfan mánuð. Bandaríkjamenn hafa hingað til verið tregir til að veita Úkraínumönnum þessa heimild, en það sem er talið hafa auðveldað þessa ákvörðun er yfirvofandi gagnárás Rússa í Kúrsk-héraði og sú staðreynd að hermenn frá Norður-Kóreu eru gengnir til liðs við Rússa.
Sjá einnig: Sakar Joe Biden um að byrja þriðju heimsstyrjöldina áður en pabbi hans tekur við sem forseti
„Þetta er mjög stórt skref í átt að þriðju heimsstyrjöldinni,“ segir Vladimir Dzhabarov, öldungadeildarþingmaður og náinn bandamaður Pútíns Rússlandsforseta. Kallaði hann Joe Biden „gamlan mann“ sem verður ekki ábyrgur fyrir neinu eftir tvo mánuði.
Leonid Slutsky, þingmaður og leiðtogi frjálslyndra demókrata í Rússlandi, segir að Biden vilji augljóslega fara í sögubækurnar sem „blóðugi Joe“. „Þetta mun þýða aðeins eitt – bein aðild Bandaríkjamanna að átökunum í Úkraínu mun óhjákvæmilega leiða til hörðustu viðbragða Rússlands.“
Pútín Rússlandsforseti hefur enn sem komið er ekki tjáð sig um málið en hann hefur þó áður tjáð sig um hvað gæti gerst ef Bandaríkin heimila Úkraínumönnum notkun á eldflaugum sínum í Rússlandi.
Í október síðastliðnum sagði hann að það myndi þýða að „Vesturlönd ættu í stríði við Rússland“. Benti hann á að aðeins sérfræðingar NATO gætu stýrt þessum flaugum á rétt skotmörk en það gæti úkraínski herinn ekki tryggt. „Við munum taka viðeigandi ákvarðanir sem munu byggjast á þeirri ógn sem mun steðja að okkur,“ sagði Pútín.
Mikhail Ulyanov, fastafulltrúi Rússlands hjá alþjóðastofnunum í Vínarborg, hvatti Frakka og Breta til að fylgja ekki í fótspor Bandaríkjamanna og heimila notkun á þarlendum vopnum innan landamæra Rússlands. Franska blaðið Figaro greindi frá því í morgun að bæði Frakkar og Bretar væru að íhuga stöðu sína eftir nýjustu vendingar.
Segir Mikhail að ef þessum þjóðum er virkilega annt um öryggi Evrópu þá muni þeir ekki feta í fótspor Bandaríkjanna.