„Ég er orðlaus,“ sagði Heimir Hallgrímsson þjálfari Írlands eftir mikinn skell gegn enska landsliðinu á Wembley í gær.
Írska liðið spilaði góðan fyrri hálfleik en allt breytist þegar leikmaður írska liðsins, Liam Scales fékk rautt spjald.
Ofan á það fékk England vítaspyrnu og komst í 1-0 á 53 mínútu leiksins. Fimm mínútum síðar var staðan 3-0 og endaði leikurinn 5-0 fyrir enska landsliðið.
„Þetta voru sex klikkaðar mínútur, það var áfall að fá á sig víti, það var áfall að fá á sig mark og áfall að missa mann af velli.“
„Við misstum hausinn, þá kom annað og þriðja markið. Við gáfumst upp.“
„Okkur vantar sjálfstraust og þetta atvik tók allt það sem við höfðum byggt upp í fyrri hálfleik.“
„Það er ekki hægt að útskýra svona hluti. Þetta bara gerðist.“