Greint var frá því í gær að Joe Biden hefði heimilað Úkraínumönnum að nota langdrægar bandarískar eldflaugar á rússneskri grundu. Þetta hefur vakið athygli víða og telja margir að þetta muni leiða til hættulegrar stigmögnunar. Þá vekur þetta athygli í ljósi þess að aðeins rúmur er þar til Biden lætur af embætti Bandaríkjaforseta.
Donald Trump Jr. lét í sér heyra á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og sagði þetta: „Það virðist vera ljóst að hergagnaiðnaðurinn vilji fá þriðju heimsstyrjöldina áður en faðir minn fær tækifæri til að skapa frið og bjarga mannslífum.”
Fleiri deila áhyggjum Trumps yngri, þar á meðal David Sacks, milljarðamæringur sem studdi dyggilega við bakið á Trump í kosningabaráttu hans. Hann segir að ákvörðun Bidens um að nota bandarísk vopn á rússneskri grundu muni leiða til hressilegrar stigmögnunar. Spurði hann hvort markmið Bidens væri að láta Trump taka við í eins erfiðu ástandi og mögulegt er.
Búist er við því að Úkraínumenn muni beita hinum langdrægu bandarísku flaugum á næstu dögum.