Kennarar eru æfareiðir út í Stöð 2 og fréttakonuna Telmu L. Tómasson fyrir viðtal þeirrar síðarnefndu við Magnús Þór Jónsson, formann Kennarasambands Íslands í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi.
Telma tók Magnús Þór engum vettlingatökum í viðtalinu og gekk á hann með ágengum spurningum um hvort að kennarar væru ekki að mismuna börnum með verkfallsgerðum sínum, sem staðið hafa yfir frá 29. október og beinast aðeins að nokkrum völdum skólum. Fréttakonan greip ítrekað fram í fyrir Magnúsi og hafa miklar umræður skapast um viðtalið innan raða kennara, til að mynda á Skólaþróunarspjallinu á Facebook.
Þar ná fjölmargir kennarar ekki upp í nefið á sér fyrir reiði og eru allir sem vettlingi geta valdið hvattir til þess að senda Stöð 2 kvörtunarpóst vegna viðtalsins.
Þá er fullyrt í spjallinu að Telma eigi sjálf barnabarn á leikskólanum Drafnarsteini í Reykjavík og þar með sé um augljósan hagsmunaárekstur að ræða. Einn af þeim sem stígur fram með þær ásakanir er Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður KÍ.