fbpx
Sunnudagur 17.nóvember 2024
Fréttir

Fyrirtæki greiða ekkert fyrir skilti á gangstéttum miðborgarinnar eða hvílustæði

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 17. nóvember 2024 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í byrjun október birti DV frétt um skemmdir ungmennis á frístandandi búðarskilti á Skólavörðustíg. Umræða hafði skapast um myndbandið í íbúahópi miðborgarinnar og snerust margar athugasemdir um hvað slík skilti væru að gera á gangstéttum og töldu skiltin hamla því að gangandi vegfarendur kæmust leiðar sinnar. 

Sjá einnig: Skemmdir ungmennis á auglýsingaskilti í miðbænum vekja úlfúð

Fyrirspurn til borgarinnar

Fyrirspurn var í kjölfarið send til borgarinnar varðandi slík auglýsingaskilti, og einnig varðandi svokölluð hvílustæði. Samkvæmt upplýsingum á vef Reykjavíkurborgar eru hvílustæði bílastæði sem breytt er tímabundið í dvalarsvæði fyrir íbúa og gesti borgarinnar. Megináhersla með hvílustæðunum er að skapa skemmtileg svæði fyrir fólk í sólríkum göturýmum borgarinnar, svæðum sem geta hvatt til dvalar, samskipta og leiks.

Fyrirspurnin hljóðaði svo:

Mig langar að vita hvaða reglur gilda um frístandandi skilti og fleira sem víða má sjá á gangstéttum í miðborginni. 

Frístandandi skilti (ein verslun á Laugavegi er sem dæmi með þrjú slík fyrir framan verslun sína), borð, stólar, bekkir, blómapottar og ker, standar með dóti á og fleira er að finna allavega á gangstéttum á Bankastræti, Laugavegi, Skólavörðustíg, Ingólfsstræti, Barónsstíg og víðar. 

Hvaða reglur gilda?

Þarf verslun/fyrirtæki að sækja um leyfi fyrir slíku skilti og/eða öðru, er mismunandi leyfi/reglur eftir því hverju viðkomandi verslun/fyrirtæki ætlar að skella út á gangstétt?

Þarf verslun/fyrirtæki að greiða fyrir?

Hvað gildir leyfi lengi ef slíkt leyfi þarf og er gefið út?

Er eitthvað eftirlit með þessum skiltum og öðru sem sett er út á gangstétt, það er bæði almennt hvort leyfi er fyrir þeim sem standa (ef leyfi þarf) og þeim sem hafa slík leyfi (ef leyfi þarf)?

Hvernig er með svokölluð hvílustæði, sem taka bílastæði. Hvaða reglur gilda um þau, þarf að sækja um leyfi, hvað er greitt fyrir slíkt leyfi, hversu lengi gildir það og er eftirlit með þeim? 

Fyrirtæki greiða ekkert fyrir auglýsingaskilti og/eða hvílustæði

Skriflegt svar barst frá Reykjavíkurborg níu dögum síðar. Samkvæmt svarinu þurfa fyrirtæki hvorki að greiða fyrir að setja auglýsingaskilti fyrir framan verslun sína né fyrir hvílustæði. Slík skilti eiga að vera upp við húsvegg, ekki á gangstétt og er miðað við eitt skilti per rekstur. Eftirlit er á vegum borgarinnar, en erfitt að hafa eftirlit með öllu, en ábendingar vel þegnar.

Hvaða reglur gilda? Þarf verslun/fyrirtæki að greiða fyrir?

Skipulagsfulltrúi sér um reglur varðandi skilti á borgarlandi. Miðað er við eitt skilti per rekstur upp við húsvegg, ekki úti á gangstétt. Ekki er greitt fyrir þau.

Flestir blómapottar í miðborginni eru á vegum borgarinnar, en ef verslun vill setja blómapott fyrir utan hjá sér þá er það bara frábært, við viljum græna borg. 

Borgarbekkir eru allir á vegum borgarinnar.

Hér er að finna ýmsar nánari upplýsingar.

Er eitthvað eftirlit með þessum skiltum og öðru sem sett er út á gangstétt, það er bæði almennt hvort leyfi er fyrir þeim sem standa (ef leyfi þarf) og þeim sem hafa slík leyfi (ef leyfi þarf)?

Eftirlit með skiltum á gangstéttum er á hendi Reykjavíkurborgar. Eftirlitsdeild umhverfis- og skipulagssviðs bregst við ábendingum sem berast varðandi skilti, en þær þurfa þá að berast í gegnum ábendingarvefinn, abendingar.reykjavik.is.

Hverfastöðvar hafa einnig sinnt þessu verkefni.

Erfitt er að hafa eftirlit með öllum skiltum, stöndum, útstillingum og öðru sem rekstraraðilar setja út á stétt en við viljum endilega fá ábendingar um slíkt svo hægt sé að bregðast við.

Hvernig er með svokölluð hvílustæði, sem taka bílastæði. Hvaða reglur gilda um þau, þarf að sækja um leyfi, hvað er greitt fyrir slíkt leyfi, hversu lengi gildir það og er eftirlit með þeim? 

Mismunandi reglur gilda um hvílustæði en hér má finna ýmsar upplýsingar, til dæmis um hvar má setja hvílustæði, hvaða reglur gilda, hönnunarleiðbeiningar og fleira. 

Ekki er tekið gjald fyrir hvílustæði, ekkert frekar en við afnot af borgarlandi til útiveitinga hjá stöðum sem standa við torg eða önnur opin svæði.

Veitt eru afnot af borgarlandi til útiveitinga samkvæmt samningi þar sem fram koma teikningar sem sýna stærð og uppsetningu útiveitingasvæða.

Lögreglan sinnir eftirliti með útiveitingasvæðum, þ.e.a.s hvort rekstraraðilar séu með leyfi til útiveitinga og samþykkt afnot af borgarlandi til útiveitinga. Borgarhönnun hefur einnig eftir bestu getu fylgst með hvílustæðunum, þá aðallega að þau skerði ekki aðgengi.

Öll sækja um á sama hátt óháð því hvort er um að ræða hvílustæði eða annars konar útiveitingasvæði, hér.

Samningurinn er háður því að viðkomandi rekstur sé með leyfi til útiveitinga frá sýslumanni. Það á við öll útiveitingasvæði, bæði hvílustæði og svæði við gangstétt, torg eða Austurvöll.

Ekki hefur verið tekin ákvörðun til framtíðar um að rukka ekki, en eins og staðan er núna er það ekki gert. Með þessu er reynt að ýta undir líf í miðborginni og fjölga svæðum þar sem hægt er að setjast út með mat eða drykk á þeim fáu sólardögum sem gefast.

Skortur á leyfi til útiveitinga

Líkt og fram kemur hér ofar er ekki nóg að sækja um leyfi til borgarinnar til að setja stóla, bekki og borð fyrir framan kaffihús eða veitingastað, eða útbúa hvílustæði undir slíkt. Einnig þarf leyfi til útiveitinga frá sýslumanni. Eins og kom fram í fréttum í sumar, líkt og þessari hjá Vísi miðjan júní skorti slík leyfi hjá mörgum stöðum í miðborginni.

Eru gangstéttir fyrir gangandi eða auglýsingaskilti?

Þegar gengið er um miðborgina má víða sjá allt annað en gangandi fólk á gangstéttum: auglýsingaskilti, borð, stóla, bekki, blómapotta, ísbirni og margt fleira. Tæplega 100 slík auglýsingaskilti eru á Bankastræti og Laugavegi frá Lækjargötu að Snorrabraut, flest eru til fyrirmyndar og aðeins eitt skilti per rekstur líkt og kemur fram hér að ofan í svari Reykjavíkurborgar. Á öðrum stöðum komast gangandi vegfarendur ekki leiðar sinnar á gangstéttinni, hvað þá ef viðkomandi væri með barnavagn eða kerru, eða einstaklingur í hjólastól. Í þeim tilvikum þarf viðkomandi að fara út á götu til að komast leiðar sinnar.

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir á þessum og geta lesendur metið hvort ofangreindum reglum sé fylgt. Bent er á að Laugavegur er göngugata frá Frakkastíg að Klapparstíg og því rýmra fyrir gangandi vegfarendur að athafna sig.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

TF-RAN ferst í Jökulfjörðum: Fjögurra manna er saknað – Eitt mannskæðasta slys í sögu Landhelgisgæslunnar

TF-RAN ferst í Jökulfjörðum: Fjögurra manna er saknað – Eitt mannskæðasta slys í sögu Landhelgisgæslunnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þórður Snær fór mikinn í Metoo-byltingunni og fordæmdi klefamenningu í knattspyrnuheiminum

Þórður Snær fór mikinn í Metoo-byltingunni og fordæmdi klefamenningu í knattspyrnuheiminum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði

Sýndu nektarmyndir af Melania Trump í rússnesku sjónvarpi – Segir að Pútín sé að sýna Trump hver ráði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“

Oddvitinn í veikindaleyfi og sakar minnihlutann um ofbeldi – „Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Brá í brún þegar hann sá verðið sem matarinnkaupin áttu að kosta – 548.273 krónur

Brá í brún þegar hann sá verðið sem matarinnkaupin áttu að kosta – 548.273 krónur
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Talskona Stígamóta tjáir sig um blogfærslur fyrri tíma – „Sá ég tilefni til að kæra nauðgunarhótun í einni slíkri“

Talskona Stígamóta tjáir sig um blogfærslur fyrri tíma – „Sá ég tilefni til að kæra nauðgunarhótun í einni slíkri“