Willum Þór Þórsson heilbrygðisráðherra var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Margt var tekið fyrir í þættinum og í einum lið var Willum spurður ýmissa spurninga um hitt og þetta, meðal annars hverjum hann þætti vera fyndnasti Íslendingurinn. Varð honum þá hugsað til herrakvölds sem hann sótti á dögunum.
„Þarna kemur Ari Eldjárn og ég hef ekki hlegið svona mikið lengi. Ég er enn með kviðverki,“ sagði Willum, sem hefur lengi fylgst með Ara.
„Ég ber líka virðingu fyrir hvað hann hefur verið að bæta sig og efla í gegnum tíðina. Ég var einu sinni með fótboltalið í brekku. Við vorum búnir að byrja illa, tapa svolítið af leikjum. Þá þarftu að hugsa hvernig þú ætlar að létta andrúmsloftið. Ég skipulagði fund og spilaði það þannig að ég myndi alveg örugglega vera með svona 2 tíma glærusýningu og tala mikið, fara í skipulagið og vera með langa æfingu á undan. Ég sá hópinn deyja inni í sér,“ sagði Willum léttur, en hann var auðvitað farsæll fótboltaþjálfari um langt skeið.
„Í millitíðinni vorum við búnir að tala við Ara og biðja hann um að koma. Þetta var lítill fundur og ég ber virðingu fyrir að hann hafi verið tilbúinn að koma. Við vorum bara með þetta létt, stutt innslag og svo kom hann inn. Svo var bara gleði í kjölfarið, það var létt á öllu. Og við auðvitað unnum næsta leik.
Þú þarft stundum að gera eitthvað svona. Og hann hafði hæfileika til að lesa í aðstæður og hópinn. Hann náði því algjörlega fullkomlega sem þurfti fyrir þennan hóp til að létta andann,“ sagði Willum.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar