Willum Þór Þórsson heilbrygðisráðherra var gestur Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í nýjasta þætti af Íþróttavikunni á 433.is.
Þar var farið yfir víðan völl og meðal annars rætt um Arnar Gunnlaugsson, sem eins og flestir vita hefur verið að gera frábæra hluti með Víking undanfarin ár. Willum þjálfaði hann hjá KR á sínum tíma og var Arnar þá aðstoðarmaður Willums í Vesturbænum um skeið.
„Hann er búinn að gera þetta mjög vel og er mjög einlægur í sinni nálgun. Hann gefur allt í þetta,“ sagði Willum er hann ræddi þjálfaraferil Arnars það sem af er. „Það sem ég var ekki endilega búinn að sjá fyrir er hvað hann er viljugur til að viðurkenna, breyta og læra og gera það hratt.“
Willum sagði þá að Arnar geti einnig verið með stórt skap, sem nýtist vel á sviði knattspyrnunnar. Rifjaði hann upp stórskemmtilega sögu frá því hann þjálfaði hann í KR.
„Þú þarft að hafa skap í þetta hvort sem þú ert leikmaður eða þjálfari. Ég man eftir því að við vorum að fara í Evrópuleik og þeir voru búnir að vera að kljást við meiðsli, meðal annars Arnar, Bjarki, Gummi Ben, Sigurvin og fleiri. Þannig ég skildi þá alla eftir. Við vorum að fara að spila í Armeníu.
Arnar var þarna bara að spila í KR því hann ætlaði sér út í atvinnumennsku aftur. Hann varð mjög sár út í mig að fá ekki að fara í þennan leik og lét mig alveg finna það. Ég man að ég stilti upp prógrami fyrir þá þennan tíma sem við vorum úti. Hann kom inn í klefa og það var ruslafata fyrir framan hann og hann lét bara vaða. Ég sat bara og beið eftir að fara með þeim yfir stöðuna. Hún flaug bara hérna í vegginn við hliðina á mér. Það voru engin svipbrigði frá mér, ég lét sem þetta hefði ekki gerst. Þetta verður þú að hafa.
Við vorum á leið í úrslitaleik um Íslandsmeistarartitilinn og hann skoraði þrjú mörk í 4-1 sigri,“ sagði Willum, léttur í bragði.
Umræðan í heild er í spilaranum.
Íþróttavikan er í boði Bola léttöl og Lengjunnar