fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fókus

Eru valdastéttir að notfæra sér menntakerfið til að framleiða undirgefna borgara?

Fókus
Föstudaginn 15. nóvember 2024 21:30

Mynd/Skjáskot úr myndbandi Pink Floyd við Another Brick in the Wall

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menntamál hafa mikið verið í umræðunni hér á landi undanfarna mánuði og líklega verður ekkert lát á því á næstunni. Flestir flokkar í framboði hafa sínar hugmyndir um hvernig megi bæta stöðuna í menntakerfinu okkar og enn á eftir að ganga til kosninga, sjá hvernig flokkarnir sem mynda meirihluta flétta menntaloforð sín saman og svo taka efndir víst einhvern tíma, ef loforðin eru þá á annað borð efnd.

Er þá ekki ágætt að stíga út úr menntapólitík yfir í menntasamsæri? Félagarnir í hlaðvarpinu Álhatturinn birtu í dag splunkunýjan þátt þar sem sjónunum er beint að menntakerfinu. Að þessu sinni taka þeir fyrir samsæri um að valdastéttin nýti menntakerfið til að framleiða undirgefna borgara.

Af lýsingu þáttarins má ráða þar velta álhattar fyrir sér áleitnum spurningum um menntakerfið á borð við til hvers erum við látin mennta okkur í allskonar tískufræðum en á sama tíma fáum við nánast enga kennslu fjármálalæsi eða öðrum nauðsynlegum atriðum til að undirbúa okkur undir lífið sem fullorðnir einstaklingar.

Í raun hefur lengi verið talað um það hvernig ákveðin innræting getur átt sér stað í skólum. Til dæmis skrifaði franski heimspekingurinn Louis Althusser að skóla megi finna ósýnilega námskrá. Hún sé ekki áþreifanleg en hún sé alltumlykjandi í menntakerfinu. Þar læri börn að sætta sig hlutskipti sinn innan kapítalísks samfélags. Með einkunnum sé svo hægt að draga börnin í dilka – og úthluta þeim því hlutskipti sem „hæfir“ getu þeirra á vinnumarkaðinum.

Hljómsveitin Pink Floyd kom inn á þetta í einu frægasta lagi sínu, Another Brick in the Wall. Þar er menntakerfinu líkt við verksmiðju þar sem börnum er steypt í sama múrsteinamótið.

Er þetta þaulskipulagt ráðabrugg?

Við gefum álhöttum orðið:

„Stundum er sagt að mennt sé máttur og góð menntun sé lykillinn að árangursríku og góðu lífi. Nám er vinna og vinnan göfgar manninn, ekki satt? En hvaðan kemur menntakerfi okkar og á hvaða grunni eða hugmyndafræði er það byggt?

Er markmið yfirvalda að undirbúa okkur öll sem best fyrir lífið svo við höfum sem mesta möguleika opna á vinnumarkaði og tilgangurinn að tryggja sem flestum velgengni eða gefa sem flestum tækifæri? Eða búa aðrar og annarlegar ástæður að baki? Hvað ræður því hvaða fögum er gert hátt undir höfði og hvaða fögum ekki? Hvaða fólk er þetta sem tekur þessar ákvarðanir og í hvaða tilgangi? Skiptir kannski engu sérstöku máli hvað er á námskrá og hvað ekki? Eða er þetta allt saman þaulskipulagt og vel undirbúið ráðabrugg illa innrætts fólks með myrkar hvatir?

Dæmi eru um það í mannkynssögunni að hin ýmsu yfirvöld hafi beitt menntakerfinu markvisst til þess að gera ákveðinni hugmyndafræði hátt undir höfði eða bæla aðrar hugmyndir niður, m.a. til þess að tryggja sjálfum sér enn frekari eða áframhaldandi völd eða koma í veg fyrir einhverskonar uppreisn eða mótmæli borgaranna.

Ef menntakerfið getur aukið þekkingu og færni á ákveðnum sviðum með áherslubreytingum, gætu stjórnvöld þá ekki allt eins ákveðið að halda aftur af ákveðnum fögum eða þekkingu og letja fólk til þess að sækja sér ákveðna þekkingu eða færni í stað þess að hvetja?

Hvað ef stjórnvöld líta á ákveðnar vísindagreinar eða jafnvel aðferðarfræði sem ógn við sig og sína? Hvað ef vísindin og fræðimenn eru farin að ógna heimsmynd yfirvalda og hugmyndafræði? Munu yfirvöld kyngja stoltinu, viðurkenna mistök sín og breyta námskrá í samræmi við nýjustu og bestu þekkingu hverju sinni, eða eru þau líklegri til þess að halda áfram að keyra á sömu hugmyndafræðinni í þeirri von að almenningur sjái ekki í gegnum svikamylluna og blekkinguna?

Borgaraleg réttindi en ekkert fjármálalæsi

Mao í Kína og Nasistarnir í Þýskalandi nýttu menntakerfið grimmt til að heilaþvo þjóðir sínar og ota sínum tota til að selja fólkinu hugmyndafræði sína og dæmi eru um samfélög þar sem yfirvöld hafa keyrt í gegn gífurlegar endurbætur á menntakerfi sínu til þess að ná fram auknum lífsgæðum og velmegun t.d. með aukinni áherslu á hátækni, vísindi eða verkfræði. Önnur samfélög hafa jafnvel lagt ofuráherslu menntun lækna og heilbrigðisstarfsfólks svo hægt sé að koma á heilbrigðiskerfi á heimsmælikvarða.

Það er staðreynd en ekki kenning eða samsæri að stjórnvöld hafa margoft í gegnum tíðina gert róttækar breytingar á menntakerfum og grunnmenntastefnu landa sinna og oft með góðum árangri. Hvað er því þá til fyrirstöðu að ákveðin stjórnvöld nýti sér menntakerfið til eigin hagsmuna eða til lýðsstjórnunnar?

Stjórnvöld gætu t.d. með ákveðnum áherslum í menntakerfinu mjög auðveldlega alið á ótta við ákveðna einstaklinga hluti eða atburði og innrætt ákveðin viðmið eða gildi. Menntakerfi heimsins hafa líka tekið örum breytingum með tilheyrandi tækniframförum og páfagaukalærdómur fortíðarinnar, þar sem leggja þarf alla mögulega og ómögulega hluti á minnið, hefur vikið fyrir nútímalegri og hentugri kennsluaðferðum. Með þessu sparast tími og vinna og þá er mögulega hægt að leggja aukna áherslu á önnur mikilvægari fög. Eða hvað? Hví hafa yfirvöld valið að leggja áherslu á aukna náttúruvitund, kynseginfræði og allskonar borgaraleg réttindafræði á meðan minni eða engin áhersla er lögð á hluti einsog fjármálalæsi? Hvaða fólk er það sem sækir sér framhaldsnám og úr hvaða lögum samfélagsins kemur það? Hver er raunverulegur kostnaður menntakerfisins og er háskólanám raunverulega þess virði, ef það kostar okkur handlegg og fótlegg og við stöndum eftir með stóra skuld sem við munum þurfa að greiða af allt til æviloka?

Eru yfirvöld raunverulega að undirbúa okkur af kostgæfni fyrir lífið eða eru þau einfaldlega að reyna að gera okkur háð þeirra kerfi og hlekkja okkur í einhverskonar hugmyndafræðilegan þrældóm svo auðveldara sér að stjórna okkur eftir hentugleika?

Þetta og svo margt, margt fleira er snýr að menntakerfi heimsins í þessum nýjasta þætti Álhattarins þar sem þeir félagar Guðjón Heiðar, Haukur Ísbjörn og Ómar Þór ræða þá skemmtilegu samsæriskenningu að Valdastéttin nýti menntakerfið til þess að framleiða undirgefna borgara.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“

Gunnar Dan um breytingaskeið karla – „Smátt og smátt fór ég að verða betri, sterkari, rólegri, skýrari, graðari, ánægðari“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi

Sagðist ætla að sænga hjá öllum þessum pöbbum – Kom upp um sig í þessu myndbandi