Alræmd bloggskrif Þórðar Snæs Júlíussonar frá árunum 2004 til 2007, sem afhjúpuð voru í þættinum Spursmál á mbl.is, hafa verið eitt helsta fréttaefni vikunnar. Skrifin, sem m.a. einkennast af kvenfyrirlitningu, útlitssmánun og klámdýrkun, þykja vera langt á skjön við þau viðhorf sem einkennt hafa skrif og allan málflutning Þórðar Snæs á undanförnum árum.
Áður hefur verið bent á harðorða grein Þórðar Snæs frá árinu 2019 þar sem hann gagnrýnir harkalega að þingmenn Miðflokksins hafi ekki verið látnir sæta ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Í niðurlagi pistilsins sagði hann:
„En stóri lærdómurinn sem er falinn í Klaustursmálinu finnst ekki í framferði Miðflokksmanna. Hann er fólginn í því að nú er staðfest að svona hegðun – það sem sagt var á Klaustri og viðbrögð þeirra sem það sögðu – hefur engar raunverulegar afleiðingar. Alþingi og þeir flokkar sem þar sitja bera sameiginlega ábyrgð á því að hafa ekki ráðið við verkefnið að auka traust á mikilvægustu stjórnsýslueiningu lýðveldisins.
Þeir hafa sýnt það svart á hvítu, með því að leyfa Miðflokknum að vinna með frekju, yfirgangi og ömurlegheitum, að allir íslensku stjórnmálaflokkarnir, ekki bara Miðflokkurinn, eru hluti af vandamálinu, en alls ekki lausnin.“
Bloggskrif Þórðar Snæs hafa verið talin hluti af eitraðri karlamenningu sem töluvert kvað að úr aldamótunum. Skrif af viðlíka tagi, t.d. eftir Gilzenegger, hafa verið fordæmd og talin ýta undir kvenfyrirlitningu og jafnvel ofbeldi gegn konum. Ofbeldi gegn konum var Þórði Snæ hugleikið í Metoo-byltingunni árið 2021, ekki síst í tengslum við umfjöllun um kynferðisbrot þekktra knattspyrnumanna sem þá var áberandi í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum.
Þórður Snær birti langan og harðorðan pistil um Metoo-mál knattspyrnuhreyfingarinnar í lok ágúst árið 2021. Þar lýsti hann eitraðri klefamenningu í knattspyrnuhreyfingunni sem stuðlaði að kvenfyrirlitningu. Þar sagði meðal annars:
„Sögusagnir um hegðun og meint ofbeldisbrot sumra landsliðsmanna þjóðarinnar hafa grasserað árum saman. Sögusagnir um gróft heimilisofbeldi, stafræn kynferðisbrot, nauðganir og jafnvel brot gegn barnungum stúlkum. Þessi strákar, gulldrengirnir sem komu litla íslenska landsliðinu á EM og HM, áttu að eiga sér skuggahliðar. Hvíslað var um að innan KSÍ hafi verið vitneskja um ýmislegt sem leikmennirnir áttu að hafa gert, og að sumt hafi verið framið á meðan að þeir voru í landsliðsferðum á vegum sambandsins,
Fórnarlömb áttu að vera búin að fara í viðtöl við stóra íslenska fjölmiðla þar sem opinbera átti allt. Til áttu að vera óyggjandi sannanir, jafnvel myndbandsupptökur, sem sönnuðu sekt þeirra. Og svo framvegis.“
Hann segir að þrátt fyrir þessar sannanir hafi lítið orðið úr afhjúpunum. Sakaði hann íþróttafréttamenn um að eiga þátt í að mynda verndarhjúp yfir gerendum úr röðum knattspyrnumanna. Hann sakaði einnig KSÍ um að hylma yfir með ofbeldismönnum.
Um þetta leyti hafði Guðni Bergsson stigið til hliðar sem formaður KSÍ vegna ósanninda um ofbeldismál Kolbeins Sigþórssonar knattspyrnumanns. Þórður fór yfir það í grein sinni en sagði að Guðni væri ekki vandamálið heldur klefamenningin:
„Þótt Guðni Bergsson hafi tekið rétta ákvörðun með að segja af sér, og axla þar með ábyrgð á mistökum sínum og þeirrar hreyfingar sem hann leiddi, þá leysir sú afsögn ekki vandamálið. Guðni Bergsson er ekki vandamálið þótt hann hafi unnið hjá því í nokkur ár. Vandamálið er ömurleg klefamenning sem hyllir ofbeldismenn, lítur niður á konur og upphefur eitraða karlmennsku. Hún hefur viðgengist í áratugi og á henni ber Guðni Bergsson ekki einn ábyrgð. Forysta íslenskrar knattspyrnuhreyfingar í heild á stóra hlutdeild í henni.“