fbpx
Föstudagur 15.nóvember 2024
Fréttir

Ræktandi reiddist þegar tíkin Farta fitnaði mikið – Lögregla kölluð til á hundaræktarsýningu

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 15. nóvember 2024 15:00

Pembroke Welsh Corgi hundur. Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Konan var í dag sýknuð af kröfum annarrar í Héraðsdómi Reykjaness í undarlegu hundaræktunarmáli. Var konan sökuð um að hafa fitað Corgi hund á fóðurheimili.

Atvik málsins eru þau að kona að nafni Elena Ivanova Tryggvason auglýsti eftir góðu fóðurheimili fyrir tveggja ára tík af tegundinni Pembroke Welsh Corgi, ættbókarfærða hjá Hundaræktunarfélagi Íslands (HRFÍ) þann 4. júlí árið 2023. Þessi tík, Farta, væri orkumikill sýningarhundur sem hefði fengið viðurkenningar og elskaði útivist.

Kona að nafni Victoria Rita Jaroslavsdóttir setti sig í samband við Elenu samdægurs og tók við hundinum um leið og gerðu þær með sér skriflegan fóðursamning þann 7. október þetta ár. Hundurinn yrði áfram í eigu Elenu.

11 kíló hámarkið

Í smáskilaboðum í ágúst þetta ár kom fram að hundurinn sé orðinn 11 kíló að þyngd og Elena tók fram að hann mætti alls ekki þyngjast meira. 11 kíló séu hámarkið. Hann ætti að hlaupa úti frjáls en ekki í taumi.

Lét Elena Victoriu vita af hundasýningu HRFÍ þann 2. mars árið 2024 sem Farta væri skráð á. Ítrekaði Elena að Farta væri orðin allt of feit og væri ekki látin hreyfa sig nægjanlega. Mataræðið væri heldur ekki rétt.

Tveir menn komu á heimilið

Þann 2. febrúar sendi lögmaður Victoriu Elenu bréf þar sem kom fram að hún hefði áhyggjur af hundinum. Elena hefði reynt að taka hann af Victoriu án samþykkis þann 30. janúar, eða réttara sagt tveir menn á hennar vegum hefðu komið á heimili hennar á meðan hún var ekki heima. Var lagt til að fóðursamningnum yrði sagt upp og að kaupsamningur yrði gerður í staðinn.

Lögmaður Elenu mótmælti þessu bréfi þann 8. febrúar og sagði að það hafi verið lögreglan sem hafi farið að heimili Victoriu þennan dag. Seinna kom í ljós að einhver hafði tilkynnt um vanrækslu hunds.

Ef Victoria teldi forsendur fóðursamningsins brostnar gæti hún skilað hundinum og fengið endurgreiddar 60 þúsund krónur vegna fóðurs. Í bréfinu var ítrekað að ágreiningurinn snerist um að Farta væri orðin of feit. Hún væri skráð á hundasýningu snemma í mars og það væri ekki hægt að sýna hana í því ástandi sem hún var. Um sé að ræða verðlaunahund

Möguleikarnir í stöðunni væru þrenns konar. Samningi yrði rift og fóður endurgreitt, Victoria myndi kaupa hundinn á eina milljón króna og Elena fengi eitt got eða þá að samningnum yrði fram haldið og Victoria myndi sjá til þess að hundurinn léttist fyrir sýninguna. Til þess yrði þó að verða sáttafundur.

Huglægt mat að Farta væri feit

Lögmaður Victoriu svaraði þessu og mótmælti því að hundurinn væri of þungur. Hvorki lægi fyrir mat dómara eða dýralæknis um það. Það væri huglægt mat Elenu að hundurinn væri feitur. Bauðst hún til að kaupa Förtu á 100 þúsund krónur. Önnur tillaga var að fóðursamningnum yrði rift og greiddar yrðu efndabætur upp á 811 þúsund krónur auk lögmannskostnaðar og miskabóta.

Héldu bréfsendingar lögmannanna áfram um úrlausnir á málinu en reyndust árangurslausar.

Sauð upp úr á sýningu

Loks rann upp 2. mars og Victoria mætti á hundasýninguna með Förtu. Þar var líka Elena sem afhenti henni yfirlýsingu um riftun fóðursamningsins.

Elena sýndi hundinn og afhenti svo dóttur sinni hann. Fóru svo allir hundar Elenu í sýningarhring. En þá sauð upp úr. Varð orðasenna á milli Victoriu og dóttur Elenu og var lögregla kölluð til að skakka leikinn.

13 kíló

Í umsögn HRFÍ um Förtu var tekið undir það að hún væri of feit. Þar stóð: „Shown in a very heavy condition; Needs to diet.“ Engu að síður vann hún annað sætið í opnum flokki og fékk einkunnina „Very good.“

Í vottorði dýralæknis frá 4. mars kemur einnig fram að Farta hafi verið of þung. Þá var hún orðin 13 kíló og í holdastigi 6/9. Mælti dýralæknir með breytingu á mataræði og megrun. Þess utan sé hún flott tík.

Leitaði til sálfræðings

Í málinu voru einnig lögð fram staðfesting sálfræðings frá 16. apríl um að Victoria eiginmaður hennar hafi glímt við vaxandi streitu síðustu mánuði þar sem Elena hafi verið að áreita þau á ýmsan hátt, á heimili þeirra og fyrir utan það. Upplifunin hafi verið sú að þau hafi verið í stöðugri hættu á að tíkin yrði tekin af þeim ef þau færu með hana út.

Einnig að Victoria hafi upplifað líkamlega árás af hendi Elenu á hundasýningunni sem hafi leitt til þess að athygli hafi verulega verið beint að þeim og lögregla tilkölluð.

Álitshnekkir í hundaræktarsamfélaginu

Victoria krafðist skaðabóta af Elenu vegna málsins. Það er vegna fyrirvaralausrar riftunar fóðursamningsins. Hún hafi haft umsjá hunds í tæpa átta mánuði án þess að fá greitt fyrir það. Krafan var rúmlega 2 milljónir króna, það er jafngildi verðs á hundahóteli með tveimur göngutúrum og útlagðs kostnaðar, meðal annars vegna sáluhjálpar.

Einnig krafðist Victoria miskabóta upp á 2 milljónir króna vegna alvarlegrar móðgunar. Virðing hennar hafi beðið hnekki innan hundaræktunarsamfélagsins sem sé lítið og allir þekki alla. Heildarkrafan var því rúmar 4 milljónir króna.

Átti að hafa hundinn í góðu formi

Elena hafnaði þessum kröfum. Fóðursamningar séu staðlaðir hjá HRFÍ og þar komi meðal annars fram ákvæði um réttindi og skyldur hvað varðar sýningahund sem þennan. Victoria hafi gefið hundinum of mikið að borða og sennilega óhollan mat líka ásamt því að hreyfingunni var ekki sinnt nægilega vel. Hundurinn hafi þyngst sem nemur þriðjungi líkamsþyngdar á tímabilinu.

Tók dómari undir þetta. Það er að eðli fóðursamningsins hafi verið að sýna hafi átt Förtu í þeim tilgangi að vinna til verðlauna. Victoria hafi mátt vita að henni bæri að hafa hundinn í keppnishæfu formi. Ítrekað hafi Elena bent á þetta. Ekkert liggi fyrir um að skapast hafi skaðabótaskylda eða miskabótaréttur. Var Elena því sýknuð af kröfunum og Victoriu gert að greiða henni 1,7 milljón krónur í málskostnað.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra

Foreldrar leikskólabarna fagna áfangasigri – Eru afar ósátt við dómsmálaráðherra
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu

Dómur mildaður yfir Henry Fleischer fyrir að smygla gífurlegu magni af fíkniefnum með skútu
Fréttir
Í gær

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda
Fréttir
Í gær

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“

Kristrún bregst við bloggskrifum Þórðar Snæs – „Mér leið eins og ég hefði verið kýld í magann“
Fréttir
Í gær

Kristrún liggur undir feldi vegna dólgsskrifa Þórðar Snæs

Kristrún liggur undir feldi vegna dólgsskrifa Þórðar Snæs
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hrollvekjandi framtíðarsýn: Hitastig myndi falla um 7-9 gráður og Ísland yrði óbyggilegt

Hrollvekjandi framtíðarsýn: Hitastig myndi falla um 7-9 gráður og Ísland yrði óbyggilegt