Namibískir sjómenn sem var sagt upp hjá dótturfélagi Samherja krefja útgerðarfyrirtækið um fullar efndir á samningum sínum. Í nýrri skýrslu er bágri stöðu þeirra lýst, bæði fjárhagslegri og heilsufarslegri.
Gert var grein fyrir niðurstöðum rannsóknarstofnunarinnar IPPR á áhrifum uppsagna Samherja í Namibíu árið 2019 í vikunni. Þar stigu einnig nokkrir sjómenn í pontu og lýstu lífi sínu.
Í frétt namibísku fréttastofunnar NBC um málið segir að í skýrslunni sé fjallað um sundrungu, einmanaleika og fátækt sjómannanna. Þeir hafi glímt við andlega erfiðleika og háan blóðþrýsting. Sagt er að sumir þeirra hafi tekið eigið líf. Áhrifin séu mikil á fjölskyldurnar og kynbundið ofbeldi í samfélaginu hafi aukist.
Greint er frá því að sjómennirnir hafi verið á atvinnuleysisbótum frá ríkinu síðan árið 2020 en þær dugi hvergi nærri til. Margir þeirra eru orðnir stórskuldugir og eiga erfitt með að framfleyta sér. Uppsagnirnar hafa raskað fjárhagslegum áætlunum þeirra.
Í skýrslunni kemur fram að 80 prósent sjómannanna reiði sig á fjárhagslegan stuðning frá ættingjum og vinum. Sumir hafi fengið vinnu í stuttan tíma eða hlutastörf, svo sem við hárgreiðslu eða við að selja varning úti á götu.
„Þeir lýstu því hvernig þeir þurftu að koma börnum sínum fyrir í fóstri hjá ættingjum af því að þeir gátu ekki brauðfætt þau. Áttu ekki efni á að senda þau í skóla. Þannig að eitt barn var sent til þessa ættingja og annað til annarra ættingja. Flestir sjómennirnir sem við töluðum við eiga fjögur eða fleiri börn,“ sagði Frederico Links, sem kom að rannsókn IPPR. „Áhrifin á börn og fjölskyldur, brotnar fjölskyldur, er eitthvað sem þarf að kanna betur.“
Sjómennirnir krefjast 140 namibískra dollara hver, sem er rúm ein milljón íslenskra króna.
„Samherji verður að semja við sjómennina sem urðu fyrir uppsögnum og bæta fyrir það sem er útistandandi í samningunum okkar,“ sagði Johny Nefungo, fyrrverandi sjómaður.
„Þið gætuð horft á mig núna og hugsað með ykkur að ég líti ágætlega út. En það er út af konunni minni. Hún er sú eina sem aflar okkur tekna. En í raun og veru gengur okkur ekki vel. Við erum svöng. Það er eins og konan mín sé höfuð heimilisins núna,“ sagði Daniel Nailonga, einnig fyrrverandi sjómaður.
Fyrir ári síðan bauðst Esja, félag í eigu Samherja, til að borga hluta af þeim bótum sem félagsdómur í Namibíu dæmdi 23 sjómönnum sem störfuðu á togaranum Heinaste árið 2021. Heinaste var í eigu félagsins ArcticNam sem var í helmingseigu Samherja.
Lögmaður sjómannanna hafnaði boðinu og sagði að þeir ættu að fá alla upphæðina sem þeir fengu dæmda með vöxtum. Það er 1,8 milljónir namibískra dollara eða 15,7 milljónir króna. Í fréttum um málið kom ekki fram hversu hátt boð Esju var.