Fimm fulltrúar Strandabandalagsins í meirihlutastjórn Strandabyggðar hafa sagt af sér að undanförnu. Oddvitinn, Þorgeir Pálsson, segir tvo þeirra hafa fengið hótanir. Sjálfur er hann á leið í ótímabundið veikindaleyfi.
Í lok sveitarstjórnarfundar á þriðjudag, 12. nóvember, gerði Þorgeir grein fyrir erindi sveitarstjórnarfulltrúanna Sigríðar Guðbjargar Jónsdóttur, Þrastar Áskelssonar og Óskari Hafsteini Halldórssyni, sem beiddust lausnar frá störfum. Alls hafa fimm fulltrúar listans sagt af sér.
Reifaði oddvitinn ástæður þess að fulltrúarnir fimm höfðu sagt af sér. Það er vegna áreitni og ofbeldi sem þeir höfðu orðið fyrir í störfum.
„Í amk fjórum tilvikum er ástæðan of mikið álag og áreiti sem þessir fulltrúar hafa orðið fyrir í sínu starfi. Allir lögðu þeir upp með að gera vel fyrir sitt sveitarfélag. Allir lögðu þeir sig fram um að bæta og efla samfélagið. Allir lögðu þeir sig fram af heilindum og sannfæringu fyrir því að þeir væru að vinna rétt og vel fyrir Strandabyggð og íbúa þess. Allir höfðu þeir hagsmuni allra íbúa sveitarfélagsins að leiðarljósi í sinni vinnu,“ segir Þorgeir í bókuninni.
Þetta hafi hins vegar ekki dugað til. Fulltrúarnir hafi mátt sæta endalausum ásökunum og niðurrifi. Á síðasta fundi hafi tveir þeirra gert grein fyrir hótunum í sinn garð vegna starfa sinna í sveitarstjórn.
„Þetta hefur nú leitt til þess að þessir fulltrúar sjá sér ekki fært lengur, sín og fjölskyldna sinna vegna, að starfa í sveitarstjórn fyrir Strandabyggð. Þessi framkoma í garð kjörinna fulltrúa í sveitarstjórn er með öllu ólíðandi og á sér fá ef nokkur fordæmi,“ segir Þorgeir.
Í bókuninni ítrekar Þorgeir að fulltrúarnir séu lýðræðislega kjörnir. Kosningarnar árið 2022 hafi skilað afgerandi og lýðræðislegri niðurstöðu. En þar vann Strandabandalagið sigur með rúmlega 60 prósent atkvæða. Hlaut þrjá fulltrúa á meðan listi Almennra borgara hlaut tæplega 40 prósent og tvo fulltrúa kjörna.
„Árásir á þessa fulltrúa sem hér eiga í hlut, alla fimm, eru um leið árásir á lýðræðið,“ segir Þorgeir. „Það er ekkert grín að misnota málfrelsi og rétt sinn til málflutnings í sveitarstjórn á þann hátt að draga þar sífellt inn til umræðu, mál sem eiga þar ekki heima. Mál sem höfðu þann tilgang einan að gera þessa og aðra fulltrúa meirihlutans og þeirra ákvarðanir fyrir samfélagið, tortryggilegar, draga úr trúverðugleika og skemma málefnalega vinnu. Þetta er líka árás á starfsumhverfi lýðræðislega kjörinna fulltrúa.“
Nefnir Þorgeir að fólk hafi verið sakað um frændhygli í samningum við verktaka. Því hafi einnig verið opinberlega haldið fram að oddviti hafi sakað einstakling í samfélaginu um að hafa stolið tugum milljóna króna úr sjóðum sveitarfélagsins. En um er að ræða ásakanir á hendur Jóni Jónssyni, fyrrverandi sveitarstjórnarmanni sem mikið hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum undanfarin misseri.
„Hvoru tveggja eru grafalvarlegar ásakanir, sem uppfylla öll skilyrði til málsóknar, kjósi menn svo,“ segir Þorgeir. „Er þetta eðlilegt starfsumhverfi? Nei. Þetta er umhverfi litað af heift og ofbeldi og á ekkert skylt við málefnalega gagnrýni eða eðlilegan pólitískan ágreining um stefnu eða áherslur. Þetta er í raun ein tegund ofbeldis og það er mikilvægt að allir sem þetta lesa, skilji alvarleika þessa máls. Gerendurnir eru þekktir og þetta mun verða þeim til ævarandi skammar og minnkunar“.
Að lokum greindi hann frá því að hann sjálfur myndi fara í ótímabundið veikindaleyfi og miðla verkefnum sem hann hafi unnið að til starfsmanna.