fbpx
Fimmtudagur 14.nóvember 2024
Fréttir

Sjá kjósendur af arabískum ættum eftir því að hafa kosið Trump?

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024 16:30

Donald Trump Mynd/Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kjósendur í Bandaríkjunum sem eiga ættir sínar að rekja til Palestínu og annarra hluta hins arabíska heims hafa margir hverjir mótmælt hernaði Ísraela á Gaza og í Líbanon og þrýst á bandarísk stjórnvöld að gera sitt til að stöðva þessar aðgerðir. Í nýafstöðnum forsetakosningum í Bandaríkjunum var talsvert um að fólk í þessum kjósendahópi kysi Donald Trump en þetta sýna atkvæðatölur í sveitarfélögum og sýslum þar sem hlutfall þessa hóps meðal íbúa er í hærri kantinum. Óljóst er hvort þau úr þessum hópi sem kusu Trump hafi virkilega talið að hann myndi taka Ísrael harðari tökum en Joe Biden. Mögulega sér þessi hópur eftir atkvæði sínu þar sem Trump hefur tilnefnt mann í embætti sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael sem hefur meðal annars sagt að það sé ekkert til sem heiti Palestínumaður og að það sé ekkert að því að Ísrael innlimi Vesturbakkann.

Tyrkneski vefmiðillinn AA greinir frá því að kjósendur frá borginni Dearborn í Michigan ríki, þar sem meirihluti íbúa eru múslimar, sem eiga ættir sínar að rekja til arabaheimsins, hafi sent Trump opið bréf á Instagram þar sem þeir minna á að fjöldi fólks úr þessum hópi hafi kosið Trump. Um leið hvetja bréfritarar Trump til að krefjast án tafar vopnahlés á landsvæðum Palestínumanna og í Líbanon. Minna þeir einnig Trump á bréf sem hann sendi samtökum Bandaríkjamanna af líbönskum uppruna þar sem hafi heitið því að beita sér fyrir varanlegum friði.

Í Dearborn og víðar í Michigan búa um 250.000 kjósendur sem eru múslimar og af arabískum ættum. Í forsetakosningunum 2020 sigraði Joe Biden Donald Trump í Michigan með um 150.000 atkvæða mun. Í kosningunum í ár hafði Trump hins vegar betur í ríkinu gegn Kamala Harris með um 80.000 atkvæða mun.

Í greiningu Michael Traugott prófessors í stjórnmálafræði við Michigan háskóla kemur fram að þessi hópur hafi snúist gegn Biden og Harris vegna óánægju með viðbrögð þeirra við hernaði Ísrael. Staða efnahagsmála og eftirköst áhrifa Covid-faraldursins á þau mál höfðu þó einnig sitt að segja.

Algjör viðsnúningur

Traugott segir að hvorki Biden né Harris, eftir að hún tók við sem forsetaframbjóðandi demókrata, hafi beitt sér af sérstaklega miklum krafti við að bæta sambandið við kjósendur í Michigan af arabískum uppruna.

Þetta gerðu þau þrátt fyrir að alltaf hafi legið fyrir að Michigan væri eitt af hinum svokölluðu sveifluríkjum þar sem fylgið milli andstæðra fylkinga væri hnífjafnt og ríkið gæti því fallið hvoru megin sem var.

Leiðtogar sumra samtaka fólks af arabískum uppruna hvöttu meðlimi sína til að kjósa ekki Harris vegna stefnu stjórnar Biden í málefnum Gaza og Líbanon.

Traugott segir hins vegar að Trump hafi lagt mikla rækt við þennan kjósendahóp og nýtt til þess óspart tengdaföður dóttur sinnar Tiffany, Massad Boluos, en hann er af líbönskum ættum. Þetta endaði með algjörum viðsnúningi frá kosningunum 2020. Í Dearborn, þar sem eins og áður segir talsverður hluti kjósenda er af arabískum uppruna, fékk Joe Biden 69 prósent atkvæða 2020 en í kosningunum í ár fékk Kamala Harris hins vegar aðeins 36 prósent og Trump 43 prósent. Talsvert af fylgi Demókrata í Dearborn fór til Jill Stein sem var frambjóðandi Græningja en hún fékk 18 prósent en Stein hélt málstað Palestínumanna mjög á lofti.

Sams konar breytingar urðu í fleiri borgum og bæjum í Michigan með hátt hlutfall íbúa af arabískum uppruna.

Traugott segir niðurstöðuna þá að þessar breytingar á atkvæðum kjósenda af arabískum ættum hafi átt sinn þátt í því að Trump sigraði í Michigan 2024 eftir að hafa tapað í ríkinu 2020.

Sjá þau eftir því?

Það er erfitt að segja hvort þeir kjósendur af arabískum ættum í Michigan sem kusu Donald Trump hafi verið að hugsa helst um stöðu efnahagsmála, sína eigin persónulegu stöðu eða ástandið í Palestínu og Líbanon þegar þeir greiddu atkvæði. Hafi síðasttalda atriðið verið þeim efst í huga þá er mögulegt að þeir hafi séð eftir að hafa greitt Trump atkvæði eftir að í ljós kom hvern hann hefur tilnefnt sem sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael.

Nokkuð mun hafa verið um að fólk úr þessum hópi sem greiddi Trump atkvæði hafi ýmist viljað refsa Harris fyrir að stjórn Biden hafi ekki stöðvað hernað Ísraela í Palestínu og Líbanon, verðlauna Trump fyrir að hafa lagt sig fram við að ná til þeirra og einnig trúað því í einlægni að Trump myndi koma á friði eins og hann hefði heitið, meðal annars í áðurnefndu bréfi til samtaka Bandaríkjamanna af líbönskum uppruna.

Trump hefur á sínum stjórnmálaferli ekkert farið í grafgötur með stuðning sinn við Ísrael. Síðastliðinn þriðjudag tilkynnti Trump að hann hefði tilnefnt Mike Huckabee, fyrrverandi ríkisstjóra í Arkansas, í embætti sendiherra Bandaríkjanna í Ísrael. Haft var eftir Trump í tilkynningu um tilnefninguna að Huckabee bæri mikinn hlýhug til Ísrael og myndi koma á friði í Miðausturlöndum.

Mike Huckabee. Skjáskot/Youtube

Það má hins vegar velta sér fyrir hvort slíkur friður yrði ekki að mati Huckabee að vera að mestu leyti á ísraelskum forsendum miðað við ýmis ummæli hans, eins og rakið er í samantekt CNN. Á sínum ferli sem trúarleiðtogi og stjórnmálamaður hefur Huckabee ekkert farið leynt með stuðning sinn við málstað Ísrael. Hann sagði í viðtali eftir að tilnefning hans var tilkynnt að Trump myndi eftir að hann tæki við sem forseti án efa styðja það að Ísrael myndi innlima Vesturbakkann með formlegum hætti. Hann hefur áður lýst því yfir að það sé í raun ekki til neitt sem heiti Palestínumaður og enn fremur að eigi þrátt fyrir það að stofna palestínskt ríki ætti það að vera innan landamæra einhvers af nágrannaríkum Ísraels.

Ráðherrar í ríkisstjórn Ísraels hafa fagnað tilnefningu Huckabee en það má hins vegar velta fyrir sér hvað kjósendum Trump af arabískum ættum, í Michigan, finnst. Ætli þeir sjái nú eftir atkvæðum sínum?

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður

Ráðgjafi Trump segir að Zelenskyy verði að sætta sig við að Krímskagi sé tapaður
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda

Smjörþjófnaður eykst í Rússlandi – Er merki um undirliggjandi vanda
Fréttir
Í gær

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“

Þórður Snær biðst afsökunar – Snærós: „Kommon. Þú varst fullorðinn maður“
Fréttir
Í gær

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund

Segir að Kristrún hafi tekið Stefán Einar í kennslustund
Fréttir
Í gær

Fangi lést á Litla Hrauni í dag

Fangi lést á Litla Hrauni í dag
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Önnur skriða féll á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals

Önnur skriða féll á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals