Samfylkingin mælist nú með 20,1% fylgi en Viðreisn með 19,9%. Athygli vekur að samkvæmt könnun Maskínu þann 18. október var Samfylkingin með 22,8% fylgi en Viðreisn 13,8%.
Sjálfstæðisflokkurinn er á svipuðum slóðum og í síðustu könnunum og mælist nú með 13,4% fylgi. Miðflokkurinn hefur heldur dalað að undanförnu og mælist fylgi flokksins nú 12,6% eftir að hafa verið 17% þann 18. október síðastliðinn.
Flokkur fólksins mælist með 9,2% fylgi og er nokkuð stöðugur frá síðustu könnunum á meðan Framsóknarflokkurinn mælist með 7,3% fylgi.
Sósíalistaflokkurinn bætir töluverðu við sig og mælist nú með 6,3% fylgi eftir að hafa verið undir 5,0% í síðustu tveimur könnunum Maskínu. Píratar eru áfram á barmi þess að detta út af þingi en fylgi flokksins mælist nú 5,1%.
VG virðast vera í andarslitrunum en fylgi flokksins mælist nú 3,4% og þurrkast út af þingi ef kosningar fara á þennan veg. Lýðræðisflokkurinn mælist með 2,1% fylgi og Ábyrg framtíð 0,6%.
Miðað við þingstyrk á landsvísu myndu þingsæti skiptast á eftirfarandi hátt:
Samfylkingin, 14 þingsæti
Viðreisn, 14 þingsæti
Sjálfstæðisflokkurinn, 9 þingsæti
Miðflokkurinn, 8 þingsæti
Flokkur fólksins, 6 þingsæti
Framsóknarflokkurinn, 5 þingsæti
Sósíalistaflokkurinn, 4 þingsæti
Píratar, 3 þingsæti
Vísbendingar eru þó um að þeir flokkar sem ekki ná 5% á landsvísu nái inn þingsæti í einstaka kjördæmi og þá myndi þingstyrkur breytast.
Könnunin fór fram dagana 8. Til 13. Nóvember 2024 og voru 1.463 svarendur sem tóku afstöðu til flokks.