Rogan, sem opinberaði stuðning sinn við Donald Trump skömmu fyrir kosningar, heldur úti einum vinsælasta hlaðvarpsþætti heims.
Rogan sagði frá því í þætti sínum á þriðjudag, The Joe Rogan Experience, að kosningateymi Harris hafi „dregið rauða línu“ yfir umræðu um kannabisefni og lögleiðingu marijúana. „Sem mér fannst bráðfyndið,“ sagði Rogan.
Hann segir að kosningateymi Harris hafi sett sig í samband við hann þegar það spurðist út að Donald Trump myndi mæta í þáttinn. Bakslag virðist hafa komið í það og höfðu einhverjir úr teymi Harris áhyggjur af því að viðtal hjá honum myndi koma henni í vandræði.
Í þætti Rogans var grínistinn Adrienne Iapalucci og sagðist hún velta fyrir sér hvers vegna kosningateymi Harris taldi hana ekki mega snerta á umræðunni um kannabisefni.
„Vegna árangurs hennar sem saksóknari. Hún kom mörgum í fangelsi fyrir gras,“ sagði Rogan en Kamala Harris var yfirsaksóknari í San Francisco og síðar ríkissaksóknari í Kaliforníu áður en hún lét að sér kveða í stjórnmálum.
Innan Demókrataflokksins, að sögn New York Post, telja hátt settir aðilar að ákvörðun Harris um að mæta ekki til Rogan hafi átt þátt í hvernig kosningarnar fóru en Donald Trump vann með talsverðum yfirburðum. Um 50 milljónir manna horfðu á þriggja tíma langt viðtal Rogans við Trump á YouTube. Þáttur Rogans höfðar mikið til ungra karlmanna, hóps kjósenda sem Harris átti erfitt með að ná til.
Rogan sagði að kosningateymi Harris hafi gert fleiri kröfur, til dæmis að viðtalið yrði aðeins um klukkutími að lengd en ekki um þrír tímar eins og venjan er. Þá hafi verið lagt að Rogan að færa viðtalið frá Austin í Texas, þar sem hann rekur fyrirtæki sitt, svo Harris þyrfti ekki að ferðast þangað. Það hafi hann ekki getað tekið í mál.
„Teymið hennar ræddi oft við mitt teymi um mismunandi dagsetningar, mismunandi tímasetningar, mismunandi hitt og mismunandi þetta. Við vissum að hún myndi koma til Texas þannig að ég bauð henni að koma hvenær sem er,“ sagði Rogan en Kamala Harris kom til Houston sem er talsvert frá Austin þann 25. október síðastliðinn, rúmri viku fyrir kosningarnar.