fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

27 faldur hagnaður á einbýlishúsi unga öryrkjans – „Eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér“

Ragna Gestsdóttir
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024 11:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Nú er kaupandinn búinn að fara í einhverjar innréttingar á húsinu og hefur auglýst það til sölu á 83 milljónir. Ef fasteignin verður seld á þessu verði þá er það 27-földun fjárfestingarinnar á einu ári. Manni blöskrar fregnir sem þessar því þarna birtist okkur eitt skýrasta dæmi óréttlætis sem hægt er að hugsa sér. Því miður er þetta langt frá því að vera eina dæmi þess að heimili fólks séu seld á nauðungaruppboðum fyrir mun lægra verð en svarar gangverði fasteigna á markaði,“

segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og oddviti Flokks fólksins í Suðurkjördæmi, í grein sinni á Vísi.

Í júní í fyrra vakti nauðungarsala á húsi í Reykjanesbæ mikla athygli og reiði. Hátún 1 var selt á nauðungarsölu fyrir aðeins þrjár milljónir króna. Eigandi hússins, Jakub Polkowski var 23 ára gamall en varð öryrki þegar hann var aðeins 13 ára gamall í kjölfar læknamistaka. Hann þarf að notast við hjólastól í daglegu lífi og fékk tugi milljóna króna í bætur sem hann notaði árið 2018, þá 18 ára gamall, til að staðgreiða húsið fyrir 44 milljónir króna. Þar bjó hann ásamt foreldrum sínum og bróður.

Kaupendur hússins við nauðungarsöluna var fyrirtækið Sæstjarnan ehf., sem er í eigu feðganna Kristins Guðmundssonar og Jónasar Sigurðar Kristinssonar. Vakti það mikla reiði að sýslumaðurinn á Suðurnesjum, Ásdís Ármannsdóttir, nýtti sér ekki heimild til að endurtaka uppboðið í ljósi þess að tilboðið sem barst frá feðgunum var langt undir markaðsvirði eignarinnar, sem var tæplega 60 milljónir. Fasteignamat þess var 57 milljónir.

Sjá einnig: Mikil reiði eftir að tugmilljóna einbýlishús í Reykjanesbæ var selt undan öryrkja á þrjár milljónir – „Hvaða sál er í þessu fólki?“

Sjá einnig: Nauðungarsöluhneykslið í Reykjanesbæ – Húsið verið ítrekaður vettvangur fíkniefnasölu

Vildi breyta húsinu í gistiheimili

Nýr eigandi falaðist eftir því við Reykjanesnæ að breyta húsinu í gistiheimili. Því var hafnað.

Sjá einnig: Áætlunum um húsið í Reykjanesbæ sem selt var á afar umdeildan hátt hafnað enn á ný

Ásthildur segir dæmin sýna að það er ekkert sem kemur í veg fyrir að eignir verði seldar langt undir markaðsverði. Heimild er til staðar í lögum um nauðungarsölu til þess að eign verði seld á almennum markaði „en sú heimild er sjaldan kynnt fyrir skuldurum og er verulega vannýtt. Af öllum nauðungarsölum síðustu tíu ára var hlutfall þeirra fasteigna sem seldar voru á almennum markaði tæp 0,2% (8 eignir af 4.148 eignum).“

„Nauðungarsala fasteignar einstaklings er eitt af þyngstu úrræðum réttarkerfisins en í því felst að eign sé komið í verð í þeim tilgangi að kröfur sem á eigninni hvíla, verði efndar til fulls. Í þessum tilvikum missir fólk húsnæðið sitt og lendir jafnvel á götunni. Ef efndir fást ekki upp í skuldir fólks situr það jafnvel uppi með tugmilljóna skuldir þrátt fyrir að hafa misst heimili sitt, sem seldist eflaust langt undir markaðsverði á uppboði sýslumanns,“ segir Ásthildur og heldur áfram:

„Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna skilgreinir fullnægjandi húsnæði sem hluta af réttinum til viðunandi lífskjara. Að sama skapi setur Samningur Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi jákvæðar skyldur á aðildarríki þess samnings til að veita borgurum sínum grundvallarréttindi viðunandi lífskjara; fæði, klæði og húsnæði. Það er því með öllu ljóst réttur til húsnæðis telst til grundvallarmannréttinda.“

Ásthildur bendir að lokum á frumvarp sem hún hefur lagt fram þar sem það yrði gert að meginreglu að „við nauðungarsölu verði fasteignir seldar á almennum markaði. Það myndi koma í veg fyrir að eignir verði seldar á hrakvirði á uppboði sem enginn vissi af. Þetta er augljóst sanngirnismál sem við í Flokki fólksins teljum mikilvægt að verði samþykkt á Alþingi.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!