fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024
Eyjan

Orðið á götunni: Trúverðugleikinn horfinn – spilling og kvenfyrirlitning – eru einhverjar afleiðingar?

Eyjan
Fimmtudaginn 14. nóvember 2024 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Því er haldið fram að trúverðugleiki og traust sé forsenda þess að menn geti þrifist og náð árangri í stjórnmálum. Ár og jafnvel áratugi getur tekið að vinna sér traust kjósenda og öðlast trúverðugleika – sem unnt er að glutra niður á andartaki með mistökum og klúðri.

Orðið á götunni er að trúverðugleiki þeirra Jóns Gunnarssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar – að því marki sem hann kann að hafa verið til staðar – hafi glatast í einni svipan hjá hvorum þeirra um sig. Erlent njósnafyrirtæki gerði atlögu að syni Jóns og fékk hann til að tala af sér um innstu drauma föður síns á lokametrum stjórnmálaferils hans. Blaður sonarins var tekið upp og því dreift, m.a. til Heimildarinnar sem birti ósköpin sem sýna ógeðfellt plott og spillingu eins og hún gerist verst. Jón hefur reynt að beina athyglinni frá kjarna málsins með því að gera njósnatilburði útlendinga að aðalatriði málsins en ekki efnisinnihaldi þess sem sonur hans upplýsti um; skuggaleg áform fráfarandi þingmannsins. Fordæma má njósnatilburðina en eftir stendur það sem snýr að íslenskum kjósendum og ekki er unnt að horfa fram hjá – skefjalaus spilling. Ljóst er að þetta mál skaðar Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig mun forysta hans að bregðast við?

Þórður Snær Júlíusson, frambjóðandi Samfylkingar í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavík norður, var einnig afhjúpaður með afgerandi hætti þegar upplýst var að hann hefur stundað mjög niðrandi skrif um konur um árabil, þar á meðal nafngreinda konu sem er í forsvari fyrir eitt af stærstu fyrirtækjum landsins. Orðið á götunni er að skrif Þórðar, sem hann þrætir ekki fyrir lengur, séu vægast sagt andstyggileg, klámfengin, rætin, hrokafull og dónaleg. Þau sýni megna kvenfyrirlitningu og séu honum til háborinnar skammar. Skrif hans skaða vissulega Samfylkinguna í aðdraganda kosninga. Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, er þegar búin að fyrirgefa þetta og ætlast til að kjósendur geri hið sama. Orðið á götunni er að í ljósi þessa sé óvíst hvort Kristrún stýri raunverulega Samfylkingunni. Í öllu falli skipti trúverðugleiki litlu máli þar á bæ og kvenfyrirlitning sé bara í lagi.

Í gær var upplýst að einn af frambjóðendum á lista Sjálfstæðisflokksins er eftirlýstur af lögreglunni í Póllandi fyrir fjársvik. Óskað hefur verið eftir því að maðurinn verði framseldur. Viðbrögðin voru rétt og skjót. Maðurinn hefur dregið framboð sitt til baka og er ekki lengur í framboði fyrir flokkinn.

Orðið á götunni er að fróðlegt verði að fylgjast með því hver viðbrögð forystumanna Sjálfstæðisflokksins verði gagnvart Jóni Gunnarssyni? Verður honum gert að víkja af lista? Tæknilega séð er það ekki alveg einfalt en engu að síður framkvæmanlegt, ekki síður en hjá frambjóðandanum sem sagði sig af lista Sjálfstæðisflokksins í gær. Samfylkingin hefur þegar svarað spurningunni. Menn þurfa ekki að bera ábyrgð á orðum sínum. Samfylkingin hefur í raun lagt blessun sína yfir Klausturdónana.

Orðið á götunni er að framboð og framferði beggja manna skaði flokka þeirra. Málin eru einstaklega vandræðaleg fyrir flokkana og ekki þarf að búast við öðru en að nærvera þeirra á listunum muni valda einhverju fylgistapi enda hrein móðgun við kjósendur. Þetta á ekki hvað síst við um Þórð Snæ því að hann situr í sæti á lista Samfylkingarinnar sem gæti hæglega orðið þingsæti, mælist inni samkvæmt síðustu könnunum, en sæti Jóns hjá Sjálfstæðisflokknum gæti orðið varamanns sæti.

Orðið á götunni er að kjósendur muni draga sínar ályktanir af því hvernig flokkarnir bregðast við nú og geti þá hugsað sem svo: Pólitísk hrossakaup eru bara í lagi og einnig kvenfyrirlitning. Eru kjósendur til í það?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Í gær

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Í gær

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður

Óttar Guðmundsson skrifar: Eldræður
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Össur sendir morgunkveðju til „Engeyings“ – „Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali“

Össur sendir morgunkveðju til „Engeyings“ – „Gáfaðir menn eru oft djúpir húmoristar í tveggja manna tali“