Matvælaráðherra í starfsstjórn skipaði Jón Gunnarsson alþingismann og fyrrum ráðherra í stöðu pólitísks aðstoðarmanns.
Talsmenn annarra flokka hafa ekki dregið það inn í kosningabaráttuna. Væntanlega hafa þeir litið svo á að önnur mál væru mikilvægari.
En stundum velta litlar þúfur þungu hlassi.
Litla þúfan í þessu máli er ekki annað og meira en þetta:
Starfsstjórn hefur ekki umboð Alþingis til að taka pólitískar ákvarðanir.
Eftir að Jón Gunnarsson hafnar að taka sæti á framboðslista sér matvælaráðherra í starfsstjórn að embættisskyldurnar eru svo þungar og umfangsmiklar að nauðsyn beri til að skipa pólitískan aðstoðarmann.
Helsta hlutverk aðstoðarmanns er að hafa auga með undirbúningi pólitískra ákvarðana, sem reyndar eru ekki teknar meðan starfsstjórn situr.
Enginn gat þó staðreynt að orsakasamhengi hafi verið á milli þessarar ákvörðunar matvælaráðherra og hins að nýjum aðstoðarmanni og þingmanni snerist hugur um setu á framboðslista.
Þunga hlassið í málinu er hins vegar tálbeituleikur erlendra einkarannsakenda, sem hófst reyndar áður en ákvörðun um pólitískan aðstoðarmann í starfsstjórn var tekin. Sú blekkingaraðgerð beindist gegn fasteignasala, sem reyndar er sonur aðstoðarmannsins.
Upplýsingar sem fasteignasalinn gaf tálbeitunni hafa nú verið birtar.
Löngu er viðurkennt að fjölmiðlar geta birt efni sem þeim berst þótt það hafi upprunalega verið fengið með ólögmætum hætti ef það þykir eiga erindi til almennings.
Slík mál hafa bæði snúist um það hvort blaðamenn þyrftu að upplýsa um heimildarmenn og eins hvort þeir væru meðsekir með því að birta efni sem leynt á að fara samkvæmt lögum eða eðli máls.
Vandaðir fjölmiðlar eins RÚV og Morgunblaðið og blaða- og fréttamenn þeirra hafa nokkrum sinnum hrundið tilraunum ákæruvaldsins og Fjármálaeftirlitsins í málum af þessu tagi.
Frásagnir herma að fasteignasalinn hafi greint tálbeitunni frá því að forsætisráðherra hefði gert samkomulag við föður hans um að taka sæti á framboðslista, þrátt fyrir fyrri synjun, gegn því að hann yrði skipaður pólitískur aðstoðarmaður í matvælaráðuneytinu í því skyni meðal annars að greiða fyrir leyfi til hvalveiða.
Ágreiningur um það mál var ein helsta orsök þess að stjórnarsamstarfið rofnaði og stjórnin missti umboð til pólitískra ákvarðana.
Annað hvort var fasteignasalinn að segja satt um mál sem hann þekkti vegna fjölskyldutengsla eða hann var að ljúga þessum alvarlegu spillingarsökum upp á forsætisráðherra og föður sinn, sem lengi hafa verið nánir pólitískir bandamenn.
Enn er allt á huldu um hvor skýringin er rétt.
Hafi fasteignasalinn sagt satt er um alvarlegt spillingarmál að ræða. Hafi hann á hinn boginn logið er um mjög alvarlegan rógburð að ræða gagnvart forsætisráðherra og alþingismanni, ekki síst í ljósi þess að ætla mátti að sonurinn væri trúverðug heimild.
Þótt ekki sé full ljóst hvor skýringin er rétt hefur trúverðugleiki matvælaráðuneytisins skaðast enn á ný vegna pólitískrar stjórnsýslu.
Matvælaráðherra á bara einn leik í stöðunni vilji hann binda endi á það ástand.
Það er einmitt hlutverk ráðherra í starfsstjórn að tryggja að almenningur fái ekki á tilfinninguna að ráðuneyti sé notað í pólitískum tilgangi án umboðs frá meirihluta Alþingis.
Aðstoðarmaðurinn hefur sagt í fjölmiðlum að málið sé aðför að lýðræðinu í landinu. Hér gæti hann verið að rugla saman tveimur mismunandi hlutum.
Þekkt er að erlendar ríkisstjórnir, einkum Rússar og Kínverjar, beita nútíma tækni til að miðla villandi upplýsingum í þeim tilgangi að hafa áhrif á kosningar eða grafa undan trúverðugleika stjórnmálamanna.
Í þessu tilviki er hins vegar um gamaldags tálbeituaðferð að ræða þar sem fjölskyldumeðlimur greinir undir málsverði á góðu hóteli frá hlutum, sem fram fóru að tjaldabaki. Hvort sem hann sagði satt eða laug virðast upplýsingar hans falla undir þær skilgreiningar laga og dómstóla um efni, sem á erindi við almenning.
Aðferðin við að afla upplýsinganna getur verið ólögmæt en birting þeirra lögmæt. Í því ljósi er langsótt að tala um aðför að lýðræðinu.