fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fókus

Einar Bárðar: „Ef maður væri hræddur við það ætti maður líklega ekki erindi í að fara í framboð“

Fókus
Miðvikudaginn 13. nóvember 2024 09:58

Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Athafnamaðurinn Einar Bárðarson segir lesblindu hafa háð sér í gegnum tíðina, enda álíti margir lesblinda vera vitlausa. Einar, sem er nýjasti gesturinn í podcasti Sölva Tryggvasonar, gefur lítið fyrir neikvæða umræðu um frægt fólk í framboði og segist ekki sjá betur en að flest af því fólki eigi fullt erindi í að bjóða sig fram.

„Ég er lesblindur og eðli málsins samkvæmt sé ég það ekki sjálfur. Það verður einhver annar að benda mér á það. Ég reyni að vera ekki reiður eða pirraður yfir því að ég sé að stafa eitthvað vitlaust og aðrir sjái það, en þetta reynir oft á konuna mína af því að hún þarf að lesa hluti yfir og hjálpa mér. Ætli hún sé ekki komin með væga áfallastreitu af því að benda mér á að eitthvað sé rangt og ég reyni stöðugt að malda í móinn eða hafa rétt fyrir mér. En í seinni tíð hef ég lært að sætta mig við þetta og láta fara yfir texta fyrir mig ef það er eitthvað mikilvægt,“ segir Einar, sem segir þetta geta verið áskorun á köflum, enda sé ekki alltaf auðvelt að viðurkenna eigin galla.

„Maður er oft blindur á sína eigin galla og þá er best að kunna að sleppa tökunum af því og leyfa fólkinu í kringum sig að hjálpa sér. Það er bara því miður þannig að margir álíta fólk sem kann ekki að skrifa rétt vera vitleysinga og þetta býr til ákveðin hughrif hjá fólki. Ef ég vil ekki fá þann óþarfa stimpil á mig, þá þarf ég að kunna að sleppa tökunum og láta aðra aðstoða mig.”

Í framboði fyrir Framsóknarflokkinn

Einar er nú kominn í framboð fyrir Framsóknarflokkinn og segir að það hafi borið hratt að og ekki átt sér langan aðdraganda.

„Ég vaknaði upp einhverjum dögum eftir að það var ljóst að það ætti að boða til kosninga og mig hafði verið að dreyma einhverja þvælu. Þá var þessi hugmynd ekki komin upp eða neitt samtal um þetta. En draumurinn var um að ég ætti kannski að stofna stjórnmálaflokk málamiðlana af því að það væri mikilvægt að hafa þannig flokk. Svo þegar ég vaknaði hugsaði ég með mér hvort það væri ekki bara Framsóknarflokkurinn,“ segir Einar, sem segist ekki hafa hugsað þetta mikið frekar, en svo hafi Lilja Alfreðsdóttir haft samband við sig skömmu síðar og lagt það til að hann kæmi á lista fyrir Framsóknarflokkinn. Einar gefur ekki mikið fyrir umræðuna um frægt fólk í framboði og að það sé ekki góð þróun að landsþekkt fólk sé að bjóða sig fram í stjórnmálum.

„Það er nú bara þannig að þetta fólk verður dæmt í kosningum á sanngjarnan hátt eins og aðrir. En ég sé ekki betur en að flest af því fólki sem fellur undir þennan hatt eigi fullt erindi í að bjóða sig fram en sé ekki bara frægt fyrir að vera frægt. Ef þú hefur ríkt tilkall til að bjóða þig fram út af ákveðnum málaflokkum átt þú bara að gera það. Ef ég til dæmis hefði bara verið frægur fyrir að sitja fyrir á nærbuxunum í Hagkaupsbæklingum væri kannski eðlilegt að fólki þætti skrýtið að ég færi í framboð. En ég hef látið til mín taka í umhverfismálum, ég hef verið framamaður í skapandi greinum í 20-30 ár og ég er áhugamaður um betra samfélag. Ég er hvorki betri né verri en hver annar, en svo ákveður fólk bara hvort ég eigi erindi í þetta. Svo ég tali um einhvern annan en mig finnst mér til dæmis mjög ódýrt að tala svona um Snorra Másson, sem hefur sýnt það að hann hefur áhuga á samfélagsmálum og virðist eiga fullt erindi í að bjóða sig fram,” segir Einar, sem segir að það geti verið góður undirbúningur undir stjórnmál að hafa reynslu af því að vera á milli tannanna á fólki.

„Þeir sem hafa prófað að vera þekktir á Íslandi eru flestir orðnir vanir því að lesa alls konar hluti um sjálfa sig, jafnvel einhverja algjöra þvælu eða skítabombur og það er ákveðinn skóli. Ég hef alveg farið í þannig kollhnísa í lífinu að ég hef prófað einu sinni eða tvisvar að vera óvinsæli gæinn og veit hvað það er. Ef maður væri hræddur við það ætti maður líklega ekki erindi í að fara í framboð, af því að það gilda aðeins önnur lögmál í umræðu um fólk í stjórnmálum. Ég ræddi þetta við fjölskylduna mína áður en ég tók þessa ákvörðun og þau tóku vel í þetta.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Einar og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 20 klukkutímum

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“
Fókus
Fyrir 22 klukkutímum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum

Ragnhildur með ráðin sem virka gegn aukakílóunum
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla

Keyrði hættulegasta veg á Íslandi – Er undir sjávarmáli á kafla
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín

Ef þú færð mörg stig á þessu nostalgíuprófi gæti aldurinn verið farinn að segja til sín