Maður á sextugsaldri lést á Litla Hrauni í dag. Þetta herma heimildir DV. Bar lát mannsins að fyrir hádegi en samfangar voru látnir vita um atvikið rétt eftir hádegi.
Samkvæmt heimildum DV var maðurinn í einangrun er lát hans bar að.
Ekki náðist í Birgi Jónasson, settan fangelsismálastjóra, við vinnslu fréttarinnar, en Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, staðfestir atvikið.
Að sögn Guðmundar er hvorki talið að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti né hann hafi tekið eigið líf.
Aðrar heimildir DV herma að maðurinn hafi látist í svefni.
Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, svaraði fyrirspurn DV rétt í þessu. Hann segir:
„Get staðfest að fangi lést í dag á Litla-Hrauni.
Málið er til rannsóknar hjá lögreglu, líkt og önnur mannslát, en aðrar upplýsingar get ég ekki veitt, að öðru leyti en að ekki séu vísbendingar um að andlátið hafi borið að með óeðlilegum hætti. Rannsókn mun svo væntanlega leiða það í ljós.“