Eigandi gistiheimilis í Þorlákshöfn ákvað að sjá sjálfur um að endurnýja vatnslagnir og raflagnir í húsinu, án aðkomu fagmanna, með slæmum afleiðingum ef marka má nýfallinn dóm í Héraðsdómi Suðurlands, þar sem maðurinn er dæmdur til að greiða kaupanda eignarinnar háa fjárhæð.
Um er að ræða mál sem Ólöf Kolbrún Sigurðardóttir höfðaði á hendur Jóni Maríasi Arasyni. Gerði hún kröfu um að hann greiddi sér rétt rúmlega 25 milljónir króna. Jón krafðist þess að málinu yrði vísað frá dómi en til vara að hann yrði sýknaður af kröfum Ólafar.
Málsaðilar gerðu samning um kaup Ólafar á eigninni Oddabraut 24 í Þorlákshöfn, en um er að ræða tveggja hæða hús ásamt bílskúr. Ólöf greiddi fyrir húsið að hluta með íbúð á Akranesi. Í húsinu á Oddabraut var rekið gistiheimili með 9 herbergjum. Í söluyfirliti um húsið hjá fasteignasala segir að húsið hafi fengið gott viðhald og hafi hitalagnir, skólp, rafmagn og vatnslagnir verið endurnýjaðar á síðustu árum.
Ólöf skýrir frá því að fljótlega eftir að húsið var afhent af hún orðið þess áskynja áskynja að raf- og vatnslagnir hafi ekki virkað sem skyldi og að frágangur þeirra hafi virst hroðvirknislegur. Hafi hún leitað álits pípulagna- og rafvirkjameistara sem metið hafi frágang og efnisval ófullnægjandi og í ósamræmi við fagleg vinnubrögð og vísar hún til skýrslna þeirra því til stuðnings.
Í skýrslu sem pípulagningameistari gerði fyrir Ólöfu segir að þekkingarleysi þess sem sá um endurnýjun pípulagninga, en það var seljandinn Jón, hafi verið augljóst. Dómgreindarleysi hafi ráðið vali á lagnaefni og frágangi þess. Í skýrslu rafvirkjameistara er mælt með að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun geri úttekt á raflögnum þar
sem ófagmannleg vinnubrögð og vanræksla við uppsetningu þeirra leiði til brunahættu. Ennfremur segir í texta dómsins:
„Getur stefnandi um að hún hafi látið fyrirtækið Hreinsitækni ehf. mynda lagnir hússins og þá hafi komið í ljós að þær hefðu sigið á mörgum stöðum. Vatnshalli
væri ónógur og vatn rynni ekki um lagnirnar á réttan hátt. Þá rynni vatn ekki greitt um niðurföll sem jafnframt gæfu frá sér óeðlilega mikla lykt. Lagnir væru einnig tengdar með röngum hætti. Bendir stefndi hins vegar á að myndir af raflögnum og pípulögnum sem teknar hafi verið af stefnanda eða af einhverjum á hennar vegum liggi fyrir og sýni að ýmsu sé ábótavant og blasi slæmur frágangur á lögnunum víða við. Myndir af raflögnum sem fylgja skýrslu rafvirkjameistara sem stefnandi kallaði til sýni hið sama. Augljós viðvaningsbragur sem þar blasi við hafi átt að gefa venjulegum kaupanda ástæðu til að gæta varkárni við kaupin. Myndir með skýrslu Verkís um skoðun frá desember 2021 leiði hið sama fram. Sýni ljósmyndir þar hvar frárennslislagnir komi út úr gafli hússins og þá sé þeim sem skoði augljóst að engar svalir séu á húsinu. Í umfjöllun um bílskúr komi fram að miklar rakaskemmdir hafi verið í loftplötum sem ekki hafi getað dulist þeim sem skoðaði. Myndir úr þvottahúsi sýni greinilegar útfellingar vegna raka á veggjum og gólfi.“
Ekki náðu aðilar saman um skaðabætur vegna þessarra ágalla og því stefndi Ólöf Jóni fyrir dóm. Fyrir dómi vísaði Jón meðal annars til þess að Ólöf hefði skoðað eignina vel áður en kaupin voru gerð og hafi því haft tækifæri til að kynna sér ástand hennar. Um þetta segir dómari í niðurstöðu sinni:
„Að mati dómsins er almennt ekki á færi ófaglærðra að gera úttekt á því hvort endurnýjun hitalagna, skólps, rafmagns og vatnslagna standist allar kröfur. Verður að mati dómsins ekki séð að stefnandi hafi haft sérstaka ástæðu til að ætla annað en að lagnavinna og endurnýjun rafmagns stæðust kröfur um fagleg vinnubrögð og frágang og að stefnda hafi borið að upplýsa sérstaklega ef verkþættir við endurnýjun hita- og vatnslagna, skólps eða rafmagns hafi ekki verið tekið út eða vafi á hvort búnaðurinn væri í ásættanlegu og lögmætu horfi, en um lagnir fyrir vatn og skólp í húsum gilda sérstakar reglur í byggingarreglugerð. Sama á augljóslega við um rafmagn, hvort heldur er lagnir þess, frágang eða rafmagnstöflur. Verður ekki talið að aðstæður hafi gefið stefnanda sérstaka ástæðu til að kalla til sérfræðing við frekari skoðun fasteignarinnar einkum þegar litið er til þess sem sagði um þann búnað í söluyfirliti.“
Dómari hafnaði kröfum Ólafar varðandi bætur vegna raka og rakaskemmda í bílskúr en féllst á kröfur hennar um bætur vegna endurnýjunar á vatnsleiðslum og raflögnum. Er niðurstaðan sú að Jón er dæmdur til að greiða henni 14.596.09 kr. í skaðabætur. Einnig þarf hann að greiða henni tvær og hálfa milljón í málskostnað.
Dóminn má lesa hér.