Verjandi móður sem sakfelld var fyrir morð á sex ára syni sínum og morðtilraun gegn 11 ára bróður hans segir að málinu verði áfrýjað til Landsréttar.
Það hefur vakið umræðu að móðirin var metin sakhæf og andleg veikindi hennar leiddu ekki til refsimildunar, en hún var dæmd í 18 ára fangelsi.
DV fjallaði um dóminn fyrr í dag. Þar kemur meðal annars fram að móðirin sagði við skýrslutöku að rödd hefði talað við hana og sagt henni að fremja voðaverkið. Einnig kemur fram að eldri bróðirinn sagði að hann hefði vaknað við það að móðir hans hélt fyrir vit hans. Hún spurði hvort hann vildi ekki deyja áður en hann yrði 13 ára gamall því þá færi hann í „góða heiminn.“
Í geðmati sem gert var á konunni kom fram að hún væri fær um að bera ábyrgð á og stjórna gjörðum sínum. En á verknaðarstundu hefði hún verið haldin alvarlegum geðsjúkdómi, þunglyndi og geðrofseinkennum sem hefði áhrif á hegðun hennar, dómgreind og ákvarðanatöku. Hún væri þó sakhæf og ekkert sem benti til þess að refsing gæti ekki borið árangur.
Verjandi konunnar er Eva Dóra Kolbrúnardóttir héraðsdómslögmaður. Hún telur nauðsynlegt að taka þyngd refsingar til endurskoðunar og meta hvort andleg veikindi konunnar skuli metin til refsilækkunar. Eva segir í samstali við DV:
„Málinu verður áfrýjað til Landsréttar, þar sem telja verður nauðsynlegt að tekið verði til endurskoðunar annarsvegar hve þungur dómurinn er og hins vegar að ekki hafi verið fallist á að ákærða hafi verið ósakhæf á verknaðarstundu og hafi átt sér ákveðnar málsbætur í ljósi þess hve alvarleg andleg veikindi hún glímdi við er verknaðurinn var framinn.“