fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fréttir

Ragnar segir taka á að vera viðstaddur krufningu – „Þetta mál hélt fyrir mér vöku í tvo mánuði“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 16:00

Ragnar Jónsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnar Jónsson lögreglufulltrúi og blóðferlafræðingur segir að það geti tekið á að vera viðstaddur krufningu þar sem grunur leikur á að andlát hafi borið að með saknæmum hætti. Ragnar, sem er í viðtali í nýjasta hefti Lögreglumannsins, hefur sinnt rannsókn í þremur barnsmorðum á þessu ári.

„Það getur tekið á að vera viðstaddur réttarkrufningu þar sem grunur er um að andlátið hafi borið að með saknæmum hætti. Það er ekki fyrir hvern sem er,“ segir Ragnar í viðtalinu. „Það verður bara að hugsa þetta eins og verkefni og við erum að reyna að komast að því hvað gerðist. Það er eina leiðin til þess að ráða við þetta. Þannig að þetta er krefjandi starf – vægt til orða tekið.“

Tæknideildin, sem er staðsett við Vínlandsleið í Grafarholti, sinnir viðameiri rannsóknum á vettvangi glæpa, bruna og slysa. Ragnar segir að fjöldi alvarlegra og þungbærra verkefna hafi aukist til muna á þessu ári, bæði morða og slysa. Deildin sé undirmönnuð.

Þrjú barnsmorð

„Ég er búinn að fara í þrjú barnamorð á þessu ári. Ég myndi segja að við séum að fara í hverri einustu viku,“ en þegar viðtal Lögreglumannsins var tekið var Ragnar að rannsaka dauða tíu ára stúlku sem fannst látin í Krýsuvík. Vanalega fara tveir lögreglumenn saman í útköll en í þetta skipti voru fleiri ræstir út, betra er að fleiri sinni svona alvarlegum málum.

Ragnar var búinn að vera að vinna í málinu í þrjá daga en þá þurfti að sinna öðru máli. „Við tveir sem erum að vinna í þessu máli ætluðum að nota gærdaginn til að skrifa – en við vorum sendir á Vík af því að maður var horfinn þar. Það fór allur dagurinn í það, bæði rannsóknin og aksturinn,“ segir Ragnar. Átta starfa hjá deildinni en Ragnar segir að það þurfi helst að ráða fimm í viðbót.

Enginn tími fyrir áfallahjálp

Rannsóknirnar fara bæði fram á vettvangi og á rannsóknarstofu, svo sem við krufningu eins og áður var nefnt. Eins og gefur að skilja reynir þetta sálrænt á lögreglumennina.

Ragnar segir að aðgangur sé greiður að áfallahjálp en tímann skorti. Áréttar hann hins vegar að málin séu þung. „Ef ég færi til sálfræðings og myndi opna mig virkilega þá myndi sálfræðingurinn minn þurfa á aðstoð að halda,“ segir hann.

Morðmálið sem tók persónulega á

Hillur tæknideildar eru fullar af möppum með rannsóknarskýrslum. Þetta eru alvarlegustu lögreglumál síðustu tveggja áratuga. Þar á meðal eitt umfangsmesta morðmál undanfarinna ára, sem hinn grænlenski Thomas Möller var dæmdur fyrir árið 2017. Það mál fyllir tvær möppur.

„Það var leitað í skipinu. Við tókum bílinn alveg í nefið – það tók alveg níu eða tíu tíma. Svo þurfti að skrá niður allt sem við fundum,“ segir Ragnar og á við togarann Polar Nanoq og rauða Kia Rio bifreið sem notuð var við morðið.

Lýsir Ragnar því hvernig fulltrúar tæknideildar voru sendir á milli staða á meðan leit stóð yfir, til að rannsaka og safna vísbendingum. „Svo fannst hún blessunin,“ segir hann en rannsóknin tók mikið á hann persónulega.

„Þetta mál hélt fyrir mér vöku í tvo mánuði. Þegar rannsókninni var lokið fór ég með fjölskyldunni í sumarbústað, en ég man varla eftir þeirri helgi,“ segir Ragnar. „Ég hef farið með kynningu á rannsókn þessa máls víða erlendis. Það að fjalla um þetta mál og rannsóknina – það hefur alveg hjálpað. Ég var alveg kominn á þann stað að vilja finna mér eitthvað annað að gera.“

Viðtalið við Ragnar má lesa í heild sinni á vef Lögreglumannsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Í gær

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“