Pilturinn sem um ræðir glímir við einhverfu og sértæka átröskun (ARFID) sem olli því að hann gat ekki neytt ákveðinna tegunda matvæla sökum áferðar og lyktar. Gat hann í raun eingöngu borðað svokallað ruslfæði; hamborgara, franskar kartöflur, kleinuhringi og sykraða drykki svo dæmi séu tekin.
Foreldrar hans reyndu hvað þeir gátu að fá hann til að neyta fjölbreyttrar fæðu en allt kom fyrir ekki.
Það var svo fyrr á þessu ári að drengurinn fór að kvarta undan versnandi sjón. Í fyrstu var þetta í raun eingöngu bundið við morgnana og kvöldin en yfir daginn var sjónin eðlileg. Þetta fór síðan hratt versnandi og sex vikum eftir að hafa kvartað undan versnandi sjón gat drengurinn ekki gengið um nema með aðstoð foreldra sinna. Hann vaknaði svo eina nóttina öskrandi og kvartaði undan því að sjá ekki neitt.
Rannsóknir lækna leiddu í ljós að verulegur og langvarandi skortur á nauðsynlegum næringarefnum hefðu haft skaðleg áhrif á sjóntaugarnar. Þó að drengurinn hafi verið látinn sterkan kúr með ýmsum vítamínum og steinefnum var skaðinn skeður og telja læknar að hann muni ekki endurheimta sjónina.