fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fréttir

Síbrotamaður fékk neitun hjá Hæstarétti

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 12. nóvember 2024 13:30

Hús Hæstaréttar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hæstiréttur hefur hafnað beiðni síbrotamanns um áfrýjunarleyfi en maðurinn vildi meina að vísa ætti málinu aftur til héraðsdóms vegna þess að ákæra hefði ekki verið nógu skýr. Maðurinn hlaut dóm fyrir fíkniefnalagabrot, vopnalagabrot, tollalagabrot, brot á sóttvarnalögum og peningaþvætti. Var hann dæmdur í héraði og í Landsrétti til tveggja ára fangelsisvistar.

Maðurinn var fyrir Héraðsdómi ákærður í fimm köflum. Í fyrsta lagi fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni og lyfjalögum með því að hafa selt og afhent ótilgreindum fjölda einstaklinga lyfseðilsskyld lyf og ávana- og fíkniefni án þess að hafa til þess markaðs- og lyfsöluleyfi Lyfjastofnunar. Síðan var hann ákærður fyrir vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum handjárn og raflostbyssu sem honum var óheimilt að eiga og hafa í vörslum. Í þriðja lagi var maðurinn ákærður fyrir tolla- og vopnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 200 riffilkúlum án tilskilinna leyfa og án þess að gera tollyfirvöldum grein fyrir innflutningnum. Maðurinn var ákærður fyrir brot á sóttvarnarlögum með því að hafa brotið gegn skyldum einstaklinga sem eru í sóttkví. Loks var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa ásamt öðrum umbreytt, afhent og/eða aflað sér ávinnings að tiltekinni fjárhæð með sölu og dreifingu á ótilteknu magni lyfja og eftir atvikum með öðrum ólögmætum og refsiverðum hætti.

Hluta vísað frá

Maðurinn var sakfelldur fyrir alla þessa ákæruliði í héraðsdómi en Landsréttur vísaði hluta af fyrsta kafla ákærunnar frá dómi vegna óskýrleika en staðfesti að öðru leyti dóm héraðsdóms, þar á meðal tveggja ára fangelsisdóm yfir síbrotamanninum.

Í beiðni sinni til Hæstaréttar um áfrýjun fór lögmaður mannsins fram á að málinu yrði vísað frá héraðsdómi, til vara að héraðsdómur yrði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til lögmætrar meðferðar, til þrautavara að dómur Landsréttar yrði ómerktur og málinu vísað til lögmætrar meðferðar þar en að því frágengnu að maðurinn yrði sýknaður eða refsing hans lækkuð.

Lögmaðurinn taldi framsetningu á því sem eftir standi af fyrsta kafla ákæru ófullnægjandi. Þar væru tilgreind þrjú skipti á árunum 2018 og 2019 þar sem maðurinn hafi verið með tiltekin lyfseðilsskyld lyf í fórum sínum í því skyni að selja eða afhenda einstaklingum þau án þess að hafa markaðs- og lyfsöluleyfi frá Lyfjastofnun. Í ákærunni hafi manninum þó einungis verið gefin að sök brot gegn ákvæðum lyfjalaga nr. 100/2020 sem öðlast hafi gildi 1. janúar 2021. Lögmaðurinn sagði þessa framsetningu í ákæru ekki ganga upp enda hafi ekki verið að finna skýra refsiheimild í eldri lyfjalögum nr. 93/1994 sem í gildi hafi verið þegar þessi atvik urðu. Slíka heimild sé hins vegar að finna í núgildandi lyfjalögum. Þá sagði lögmaðurinn þann kafla ákærunnar sem lúti að peningaþvætti óskýran og hafi Landsrétti borið að vísa honum frá dómi. Dómur Landsréttar hafi bersýnilega verið rangur.

Hæstiréttur hafnaði hins vegar beiðninni um áfrýjunarleyfi á þeim grundvelli að málið hefði hvorki verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt væri af öðrum ástæðum að fá úrlausn réttarins.

Tveggja ára fangelsisdómur yfir síbrotamanninum stendur því óhaggaður.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Kringlan komin á fulla ferð á ný

Kringlan komin á fulla ferð á ný
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007
Fréttir
Í gær

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“

Alexandra lætur Sigmund Davíð fá það óþvegið: „Er maðurinn fimm ára?“
Fréttir
Í gær

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“

Sigurður Ingi skýtur hugmynd Miðflokksins í kaf: „Já, þetta er vitlaus hugmynd“
Fréttir
Í gær

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“

„Háir stýrivextir eru nefnilega bara mjög fín kjarabót fyrir þau sem eiga peninga“
Fréttir
Í gær

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“

Nýju gögnin í Geirfinnsmálinu eiga að fara til Keflavíkur – „Þarna var sáð fræi sem varð að mesta réttarmorði Íslandssögunnar“