Drummond, sem meðal annars hefur starfað sem ráðgjafi ríkja og stofnana, segir í viðtali við Daily Express að Pútín gangi um með þann draum að endurreisa rússneska heimsveldið.
Drummond telur að Eystrasaltsríkin, Eistland, Lettland og Litáen – sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum – séu í þó nokkurri hættu. Það sama megi segja um Moldóvu og jafnvel ákveðin ríki í Afríku.
„Pútín er hættulegur náungi, mjög hættulegur náungi og hann vill að Rússland verði ofurveldi að nýju,“ segir hann og bætir við að hann hafi ekki sérstaklega miklar áhyggjur af Eystrasaltsríkjunum eins og staðan er núna.
„NATO er með viðveru í Eystrasaltsríkjunum og ef eitthvað myndi gerast þar myndi það virkja 5. grein bandalagsins,“ segir Drummond en hún kveður á um að árás á eitt bandalagsríki jafngildi árás á þau öll.
„Moldóva. Hann gæti reynt eitthvað þar. Hann gæti líka reynt að gera eitthvað í Afríku, ná yfirráðum yfir ákveðnum landsvæðum þar.“
Eins og sakir standa er öll einbeiting Pútíns á að ná sigri í Úkraínu og óttast margir hvað gerist í framhaldinu ef sigur vinnst þar. Yfirvöld í Moldvóu hafa til dæmis vakið athygli á því að Rússar gætu reynt að ná völdum í Transnistríu.