Sky News skýrir frá þessu og segir að hringt hafi verið í lögregluna eftir að ættingjar gömlu konunnar heyrðu grunsamleg hljóð undir gólffjölunum heima hjá henni. Gamla konan hafði heyrt grunsamleg hljóð berast undan gólffjölunum vikum saman en taldi að það væru bara dýr á ferð.
Það tók lögregluna margar klukkustundir að ná manninum úr fylgsni sínu. Hann neitaði að yfirgefa það og lét það ekki á sig fá að lögreglan notaði hunda og piparúða til að reyna að ná honum út.
Barnabarn gömlu konunnar sagði í samtali við NBC News að maðurinn, sem er 27 ára og heitir Isaac Betancourt, hafi ekki látið hundana né piparúðann hafa áhrif á sig.
Lögreglunni tókst að lokum að ná honum úr fylgsninu með því að beita táragasi.
Hvað varðar hljóðin sagði barnabarn gömlu konunnar að þau hafi líkst því að einhver væri að banka.
Fjölskylduna grunar að Betancourt hafi jafnvel „búið“ undir húsinu í sex mánuði.