„Ég lít þannig á að það er brot að afrita síma, það er bara þjófnaður tel ég. Það hefur aldrei reynt á þetta á Íslandi áður og það er það sem ég mun láta reyna á. Mér finnst dómstólar eiga að úrskurða um hvort það sé leyfilegt að afrita síma,“
segir Páll Steingrímsson skipstjóri sem er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni.
Símamálið svokallaða er öllum landsmönnum kunnugt, en Páll ræðir í þessu viðtali um rannsókn og niðurfellingu Lögreglustjórans á Norðurlandi Eystra á byrlunar- og símastuldsmálinu hvar hann var brotaþoli.
Páll segir það á margan hátt sérstakt hvernig sumir fjölmiðlar og blaðamenn hafa meðhöndlað málið. Segir hann sakborninga í því máli hafa hingað til fengið mikið pláss í fjölmiðlum en honum hafi hvergi verið boðið að segja sína hlið.
„Það var til dæmis þáttur sem heitir Samfélagið, þar var formaður Blaðamannafélagsins ásamt Valgerði Jóhannsdóttur, sem er lektor við fjölmiðladeild HÍ og lektorinn leggur það að jöfnu að ég rétti þér símann og blað með upplýsingum á og það sé bara sami hlutur. Þessi lektor hefði kannski átt að rifja upp News of the World málið. Ef að manneskja sem er lektor við fjölmiðladeild HÍ telur þetta sambærilegt, segir það mér að siðferðið hjá viðkomandi sé á mjög lágu plani.“
Vísar hann þar til að 168 ára saga fjölmiðilsins hafi hrunið á einni nóttu af því að starfsmenn hafi brotist inn í síma og eigandi fjölmiðilsins, Robert Murdoch, taldi það óforsvaranlegt að starfsmenn sínir hefðu afritað síma og skellti í lás. Reyndar hann missti 25 þúsund áskrifendur á dag.“
Páll og Frosti ræða um persónuvernd og telja síma falla þar undir. Eitt sé að brjótast inn í hann, annað að afrita gögnin og þriðja að birta opinberlega upplýsingar sem fengnar eru með þessum hætti.
„Að birta upplýsingar er eitt en að misfara með upplýsingar og búa eitthvað til úr þeim sem er ekki innistæða fyrir, það finnst mér ómerkilegt. Það er alveg ljóst að hugmyndaflugi þessara blaðamanna eru engin takmörk sett, þeim tókst að búa til ótrúlega hluti úr þessu. Þessi skæruliðadeild hafði ekkert með yfirmenn fyrirtækisins að gera. Þetta eru bara ég og Arna að níðast á yfirmönnum fyrirtækisins. Þeir blanda Þorbirni Þórðarsyni og Jóni Óttari inn í þetta. Þú sérð engan annan eiga aðild að þessu spjalli. Það er hvergi minnst á blaðamenn, blaðamannafélag, listamenn eða neina stjórnmálamenn eða neitt inni á því spjalli. Við sögðum bara alltaf ef við náðum einhverju fram við yfirmenn fyrirtækisins, ef við fengum eitthvað sem við vildum eða gerðum, þá sögðum við alltaf „Skæruliðadeildin stóð sig vel.““
Segir Páll að þurfi að fá niðurstöðu í hvort að úrvinnsla gagnanna hafi verið í samræmi við gögnin. Segir hann nei og segist munu sýna fram á það. Aðspurður um hvort þurfi ekki að skera úr um það fyrir Fjölmiðlanefnd eða Siðanefnd blaðamanna segist Páll einnig sjá fyrir sér að Alþingi skipi nefnd sem færi yfir þetta mál. Fyrir því eru engin fordæmi, en Páll segir:
„Nei en við erum að tala um fjölmiðla og fjölmiðlar hafa alltaf gegnt ákveðnu hlutverki í lýðræðissamfélögum og við eigum ekki að líða neinn afslátt af þeim vinnubrögðum. Ég tel ekki og mér finnst skipta meira máli að komist niðurstaða í vinnubrögðin öðrum blaðamönnum til hliðsjónar í framtíðinni. Annað hvort máttu vinna þetta með þessum hætti eða ekki.“
Páll segir símamöstur sýna staðsetningu símans og hans fyrrverandi segist einnig hafa skilið símann eftir í sólarhring hjá RÚV. Síminn hafi ekki farið úr Efstaleiti. „Þóra rétti þessum þriðja aðila símann í Estaleiti fyrir framan mína fyrrverandi.“
Frosti rekur að ef niðurstaðan sé sú að það sé rangt og ólöglegt að fara inn í síma fólks og afrita gögn og það brot sé gert inni á RÚV í Efstaleiti og þá segir Páll:
„Þá sný ég mér að skaðabótamáli við RÚV. Þess vegna vil ég láta úrskurða [dómstóla] og ég sé ekkert athugavert við það, réttarvörsluúrskurð, um hvort þetta megi. Að starfsmenn opinberra stofnana megi bara taka síma af fólki og afrita þá og gerist svo bara heildsali á gögnum“.“
Páll segir að um leið og svona mál séu upplýst og það geri þau alltaf þar sem sannleikurinn leiti alltaf upp á yfirborðið á endanum.
„Og hvað gerist þá, þá töpum við traustinu. Eins og í tilviki þar sem við fáum blaðamenn sem fá stöðu sakbornings, ég ætla ekki að gera lítið úr því að þetta er ekki gott. Þetta er ekki gott, þetta er hvorki gott fyrir þá og þetta er ekki gott fyrir stéttina. En stéttin getur ekki ignorað að það geti verið eitthvað satt í því, að þeir hafi gert ákveða hluti. Menn verða að vera tilbúnir til að feisa það í stað þess að stinga bara hausnum í sandinn.“