fbpx
Fimmtudagur 26.desember 2024
Fréttir

Allt stefnir í að rekstrarfélag Kolaportsins verði úrskurðað gjaldþrota á morgun – Skuldar borginni 200 milljónir í leigu

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 11. nóvember 2024 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt heimildum DV hefur Reykjavíkurborg krafist gjaldþrotaskipta yfir félagi sem leigir út aðstöðu til söluaðila í Kolaportinu. Eigandi félagsins er Ívar Trausti Jósafatsson.

Heimildir DV herma að gjaldþrotabeiðnin sé tilkomin vegna vangoldinnar húsaleigu upp á um 200 milljónir króna. Aðspurður staðfestir Ívar þessa tölu en bendir á að félagið eigi ekki minni kröfu á borgina sjálfa.

Óháð gjaldþrotabeiðninni eru sölubásar, veitingasala og tónlistaruppákomur í Kolaportinu í hættu af þeirri einföldu ástæðu að leigusamningur borgarinnar við ríkið á húsnæðinu rennur út um áramótin og alls er óvíst hvort leigan verður framlengd. Möguleiki er á því að Kolaportsstarfsemin flytjist annað en ekkert er staðfest í þeim efnum.

Einhverjum kann að þykja flækjustigið varðandi leigu húsnæðisins óþarft, þar sem borgin leigir húsnæðið af ríkinu og félag Ívars leigir það síðan af borginni. Söluaðilar í Kolaportinu greiða síðan leigu til félags Ívars.

Er DV bar málið undir Ívar sagði hann þetta um framtíð Kolaportsins: „Á fundi með flestum föstum söluaðilum í Kolaportinu í gær kom fram skýr vilji til að halda áfram rekstri götumarkaðar undir þaki Kolaportsins. Leigusamningur Reykjavíkurborgar um húsnæðið rennur út um áramót. Óskað hefur verið eftir viðræðum við Ríkiseignir, eiganda húsnæðisins, um leigusamning sem tryggt getur framtíð Kolaportsins eftir næstu áramót. Reykjavíkurborg var treg til að framlengja líf Kolaportsins vegna áforma um að Listaháskólinn flytti inn í Tollhúsið. Þau áform eru ekki lengur uppi á borðum. Því er ég bjartsýnn á að samtöl við eiganda hússins leiði til þess að Kolaportið lifi áfram. Ég held að flestir óski þess að Kolaportið verði áfram til. Það hefur sannað sig sem mikilvægur áningarstaður ferðafólks, um helgina var dagskrá á vegum Iceland Airwaves í Kolaportinu og í viku hverri heimsækja þúsundir gesta markaðinn sem er fastur póstur í borgarlífinu.“

Varðandi gjaldþrot Portsins, félags Ívars, sem hefur rekið Kolaportið, hafði Ívar þetta að segja: „Portið hefur ekki rekið Kolaportið undanfarin tvö ár. Félagið lenti í greiðsluerfiðleikum. Annað félag tók við rekstri markaðarins í Kolaportinu á þeim tíma. Nánast eini kröfuhafi á hendur Portsins er Reykjavíkurborg. Portið er með gagnkröfu á borgina. Verði Portið lýst gjaldþrota þá verður það í höndum skiptastjóra hvort tekist verður á um kröfurnar fyrir dómstólum.“

Þess skal getið að möguleg gjaldþrotaskipti Portsins hafa engin áhrif á starfsemi Kolaportsins næstu vikurnar og verður það rekið í óbreyttri mynd fram að áramótum.

Húsnæði Kolaportsins er á forræði eignaskrifstofu borgarinnar, sem er hluti af fjármála- og áhættustýringarsviði borgarinnar. Skrifstofustjóri eignaskrifstofu er Óli Jón Hertervig. DV óskaði viðbragða hans í málinu en svör við fyrirspurn DV til hans hafa ekki borist.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“