fbpx
Föstudagur 27.desember 2024
Fréttir

Snorri allt annað en sáttur við Svandísi: „Ásakanir Svandísar í minn garð eru lygi frá rótum“

Ritstjórn DV
Mánudaginn 11. nóvember 2024 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Snorri Másson, fjölmiðlamaður og efsti maður á lista Miðflokksins í Reykjavík suður fyrir komandi kosningar, vandar Svandísi Svavarsdóttur, þingkonu og fyrrverandi ráðherra, ekki kveðjurnar. Snorri skrifar grein á vef sinn, ritstjori.is, þar sem hann svarar ummælum sem Svandís lét falla í hlaðvarpsþættinum Ein pæling á dögunum og fjallað var um á Vísi.

Í þættinum talaði Svandís, sem jafnframt er formaður Vinstri grænna, meðal annars um uppgang kvenfyrirlitningar og karlrembu í stjórnmálum í Bandaríkjunum og Evrópu. Sagði hún „sorglegt“ að sjá að ungur maður eins og Snorri ali á ótta og fordómum með orðræðu sinni í forystu flokksins.

„Við sjáum svona sprota hér. Og mér finnst átakanlegt að ungir karlmenn skuli hlaupa undir það ljós sem er sprottið af hatri og forréttindablindu gagnvart hópum sem eru jaðarsettir, hvort sem það eru konur, fólk af erlendum uppruna, hinsegin fólk, og beita orðræðu gegn þessum hópum af miklu alvöruleysi og eru þar með að fiska í gruggugu vatni að mínu mati,“ sagði Svandís í þættinum samkvæmt umfjöllun Vísis á föstudagskvöld og bætti svo við:

„Og það að ungur maður eins og Snorri Másson skuli stíga það skref inn í forystu Miðflokksins finnst mér alvarlegt.“

Hefur varað við misjöfnun árangri okkar

Snorri segist í pistli sínum vita vel að hann hefur varað við því að misjafn árangur okkar við aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi geti dregið dilk á eftir sér.

„Með tíð og tíma geti skapast mikil félagsleg vandamál sem koma verst niður á börnum af erlendum uppruna, sem ná til dæmis aldrei að fóta sig í skólakerfinu,“ segir Snorri sem vísar í orð Svandísar hér að framan.

„Ráðherrann fyrrverandi lætur hina óljósu ásökun um atkvæðaveiðar mínar ekki duga, heldur bætir um betur og segir: „Mér finnst átakanlegt að ungir karlmenn skuli hlaupa undir það ljós sem er sprottið af hatri og forréttindablindu gagnvart hópum sem eru jaðarsettir, hvort sem það eru konur, fólk af erlendum uppruna, hinsegin fólk, og beita orðræðu gegn þessum hópum af miklu alvöruleysi.“

„Mann hreinlega sundlar“

Snorri er mjög ósáttur við þessi orð ráðherrans fyrrverandi.

„Mann hreinlega sundlar við fúkyrðaflauminn. Þeir sem þekkja ekki betur til míns málflutnings hljóta að velta fyrir sér hvers konar illmenni stígur þar inn á stjórnmálasviðið. Ekki nóg með að ég „hlaupi undir hatursljósið“ heldur segir Svandís mig ábyrgan fyrir að „tendra bál haturs.“

Snorri segir að merkilegasti þátturinn í „hatursáróðri“ Svandísar sé að hún hefur ekki fyrir því að nefna nokkurt einasta dæmi máli sínu til stuðnings. „Hún lætur duga að klína þessu bara á mig,“ segir hann og heldur áfram:

„Dæmið gengur þó ekki upp, því að ég hef aldrei á ævi minni tjáð mig af hatri í garð útlendinga, kvenna eða hinsegin fólks. Það get ég fullyrt með góðri samvisku, enda hata ég ekki nokkurn mann. Það er hins vegar rannsóknarefni hvers vegna sumu fólki er í mun að ákveða fyrir mann hvern maður hatar eða, eins og í mínu tilfelli, að maður hati einhvern yfirleitt. Hvað drífur Svandísi til þess að tala svona?“

Hafa brugðist samfélaginu öllu

Snorri segir að í gegnum tíðina hafi flokkur Svandísar, VG, boðað opnari útlendingastefnu en flestir aðrir flokkar á Alþingi.

„Á síðasta áratug hefur gífurlegur fjöldi fólks flutt hingað til lands á ýmsum forsendum án þess að ráðrúm hafi gefist til að taka vel á móti því öllu. Innviðir samfélagsins hafa ekki farið varhluta af þessu, hvort sem það er heilbrigðiskerfi, húsnæðismarkaður eða skólakerfi. Íslensk tunga er víða ekki aðaltungumálið lengur, sem er sérstakt áhyggjuefni sem ég hef m.a. nefnt í sambandi við skólakerfið,“ segir hann.

Hann segir að ríkisstjórn VG hafi brugðist skyldum sínum gagnvart innflytjendum og þar með samfélaginu öllu. Svandís og félagar hennar hafi byggt hér upp skýjaborgir og boðið fólki til okkar án þess að forsendur væru fyrir boðinu.

„Á meðan þau ornuðu sér við yl eigin mannúðar, fann almenningur fyrir áhrifunum. En þær áhyggjur almennings ollu Svandísi ekki áhyggjum. Það er fyrst þegar einhver segir hlutina upphátt sem bregðast þarf við af hörku,“ segir hann og bætir við:

„Þess vegna ákveður Svandís núna, sjálf á fallanda fæti, að leggja í rætna áróðursherferð gegn ungum frambjóðanda í von um að breiða yfir afleiðingar eigin draumórapólitíkur. Þar velur hún að misbeita þessu áhrifamikla orði, hatri, og gengisfella það enn frekar en Vinstri grænir hafa þegar gert. Gleymum aldrei orðum þingflokksformannsins sem sagði gagnrýni á ríkisstjórn hans hatursorðræðu. Þau orð voru aldrei dregin til baka. Þau standa,“ sagði hann og vísaði í orð Orra Páls Jóhannssonar þingflokksformanns VG vorið 2022.

Eitt öflugasta kúgunarvopnið

„Í alræðisríkjum víða um heim er „hatursorðræða“ í raun bara orðræða sem stjórnvöld hata. Þar er þetta eitt öflugasta kúgunarvopnið í búrinu. Áhyggjuefnið er að vestræn lýðræðisríki (!) verða sífellt hrifnari af aðferðinni. Ef við viljum að alvöru hatursorðræða sé refsiverð samkvæmt lögum, verðum við að treysta því fullkomlega að stjórnvöld freistist aldrei til að víkka út skilgreininguna til að refsa andstæðingum sínum,“ segir Snorri sem endar grein sína á þessum orðum:

„Vitandi hið sanna í málinu, get ég fullyrt að ásakanir Svandísar í minn garð eru lygi frá rótum. Ég finn það því á eigin skinni að þessum rótgróna stjórnmálamanni er ekki lengur treystandi fyrir þessari ábyrgð. Þegar stöðu hennar er ógnað stenst hún ekki freistinguna. Það er í alvöru sorglegt.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 3 dögum

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft

Inga segir eiganda Lumex ljúga – Ítrekað hindrað aðgengi fatlaðra og rifið kjaft
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi

Listinn lengist – Þessir háttsettu Rússar hafa verið myrtir í Rússlandi
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár

Boða leiðindaveður yfir jólahátíðina – Gul jól í ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“

Lektor bendir á yfirgengilega framkomu fyrirtækjaeiganda í Skipholti – „Hún er því miður að gera þetta af einhvers konar illgirni“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug

Sakamál ársins I: Æði rann á fjölskylduföður, Interpol lýsti eftir Pétri, stórþjófar í Hamraborg og barnaníðingur í Dalslaug
Fréttir
Fyrir 5 dögum

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands

Ófögnuðurinn blasir við ferðamönnum við komuna til Íslands