Þegar hún opnaði sendinguna og stakk höndinni ofan í pokann fann hún skyndilega að eitthvað virtist stinga hana í fingurinn. Þegar hún gáði hvað væri eiginlega í gangi brá henni mikið enda reyndist vera sprelllifandi sporðdreki ofan í pokanum. Þýska blaðið Bild greinir frá þessu.
Það varð konunni ef til vill til happs að hún vissi nákvæmlega hvað hún átti að gera í þessum aðstæðum, en þessi tiltekna tegund sporðdreka er eitruð og getur eitrið haft mjög skaðleg, jafnvel banvæn áhrif,
„Í heimalandi mínu, Sýrlandi, hafði ég lært að til að koma í veg fyrir alvarleg áhrif væri sniðugt að skera í fingurinn rétt við stunguna til að hleypa eitrinu út.“
Konan fékk nágranna sinn til að hringja eftir sjúkrabíl og var hún flutt á slysadeild. Fingurinn – og höndin öll raunar – var orðinn mjög bólginn þegar þangað var komið.
Konan var undir eftirliti á sjúkrahúsi í tæpan sólarhring og fékk að fara heim til sín eftir að læknar höfðu gengið úr skugga um að eitrið hefði ekki haft skaðleg áhrif á líffæri hennar, svo sem nýru, lifur og hjarta.