Hann vann við að smygla fólki yfir Ermarsund, frá Frakklandi til Englands. Breska löggæslustofnunin The National Crime Agency (NCA) segir að hann hafi staðið fyrir þremur ferðum með flóttafólk yfir Ermarsund í nóvember og desember á síðasta ári. Þá flutti hann meðal annars kúrdískt flóttafólk yfir sundið.
NCA segir að Zada hafi komið að mun fleiri ferðum en þessum en hann var aðeins ákærður fyrir þær. Dómstóll í Preston fann hann sekan um að hafa flutt flóttafólk yfir sundið og dæmdi hann í 17 ára fangelsi.
Á einni af upptökunum, sem Zada birti á samfélagsmiðlum, sést flóttafólk, sem er í báti á leið til Ítalíu, lofsama Zada og klappa fyrir honum. Á annarri upptöku sjást karlar, sem voru nýkomnir til Makedóníu, þakka honum fyrir þjónustuna. Á þriðju upptökunni, sem er á YouTube, sést Zada syngja í partýi og tónlistarmenn hylla hann sem „besta smyglarann“. Talið er að það myndband hafi verið tekið upp í Írak 2021. Sky News skýrir frá þessu.